Frá og með deginum í dag verður íslenska flögusaltið frá Saltverki fáanlegt í bandarísku verslunarkeðjunni Meijer en fyrirtækið starfrækir 245 verslanir í Illinois, Kentucky, Indiana, Michigan, Ohio og Wisconsin.

Í tilkynningu segist Saltverk ánægt með að sjá aukandi vöxt og áhuga á sjálfbæru íslensku salti í Bandaríkjunum en Saltverk hóf útflutning til Bandaríkjanna árið 2017.

„Meijer er gríðarlega sterk verslunarkeðja í miðríkjum Bandaríkjanna og þetta er mikill áfangi fyrir Saltverk á sinni vegferð að koma íslensku sjávarsalti á borð Bandaríkjamanna.“

Fyrirtækið byrjaði fyrst með netsölu í Bandaríkjunum en undanfarin þrjú ár hefur átt sér stað mikil uppbygging í sölu til matvöruverslana og eru vörur Saltverk nú fáanlegar í tæplega 1.300 matvöruverslunum í Bandaríkjunum.

„Samtalið við Meijer hófst í janúar þegar við hittum þau á sýningu í Arizona. Þau urðu strax hrifin af sögu Saltverk og hvernig saltið er framleitt með jarðvarma í Ísafjarðardjúpinu. Við áttum svo aðra sýningu í Los Angeles í mars þar sem gengið var frá samningum.“

Saltverk segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum í Bandaríkjunum og mun fyrirtækið svo halda til Denver í næstu viku á áttundu sölusýningu Saltverks í Bandaríkjunum þetta árið.

Saltvörur frá íslenska fyrirtækinu Saltverk eru nú fáanlegar í tæplega 1.300 matvöruverslunum í Bandaríkjunum.