Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði í júní í tíunda mánuðinn í röð og náði gildinu 100,6, samkvæmt ráðgjafafyritækinu Analytica.
Vísitalan gefur til kynna að hagvöxtur haldi áfram að styrkjast og bendir þróunin til þess að landsframleiðsla verði yfir langtímaleitni um næstu áramót, þ.e. í desember 2025.
Þrír af sex undirliðum hækka frá í maí. Aukning aflamagns og hækkun væntingavísitölu hafa mest að segja á jákvæðu hliðinni.
Hins vegar virðist minni vöxtur í vöruinnflutningi og komur ferðamanna um Keflavíkurflugvöll undir langtímaleitni. Umtalsverð óvissa er áfram tengd þróun alþjóðastjórnmála sem og óvissa í efnahagsmálum á alþjóðavettvangi.
Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.
Vísitalan byggir á aðferðafræði OECD og tekur mið af sex lykilþáttum: aflamagni, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, vöruinnflutningi og væntingavísitölu Gallup. Uppfærðar niðurstöður fyrir júní benda til þess að íslenskt efnahagslíf gæti tekið við sér af meiri krafti síðla ársins.
Þrátt fyrir hækkun vísitölunnar og aukna bjartsýni má ekki líta fram hjá þeirri óvissu sem enn ríkir á alþjóðavettvangi.
Þróun alþjóðastjórnmála, álag í heimshagkerfinu og verðbreytingar á hrávörum gætu haft neikvæð áhrif á þróun efnahagsstarfsemi næstu mánuði.
Sérstök athygli hefur verið vakin á innflutningi fjárfestingarvara, sem virðist enn vera í vexti, en vöxtur í magni annars vöruinnflutnings er á undanhaldi.
Gildið 100 í vísitölunni táknar að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni. Með því að ná 100,6 í júní hefur vísitalan í fyrsta sinn síðan árið 2021 náð að skýrt marka sig yfir leitni.
Þetta styrkir þá sýn að hagkerfið sé að komast út úr síðustu samdráttarskeiðum og að vöxtur sé að ná fótfestu á ný.