Rekstrar­hagnaður JBT Marel, sam­einaðs félags Marel og bandaríska tækni­fyrir­tækisins JBT, fyrir af­skriftir og ein­skiptis­kostnað (e. adju­sted EBITDA) nam 268 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins.

Tekjur félagsins á sama tíma­bili námu 1.789 milljónum dala en sam­kvæmt reiknings­skila­reglum í Bandaríkjunum (GAAP) var bók­fært tap á tíma­bilinu þó 169,6 milljónir dala, einkum vegna kostnaðar sem tengist sam­runa félaganna og upp­gjöri líf­eyris­skuld­bindinga í Bandaríkjunum.

Af­koma félagsins er sterk þegar horft er til hefðbundins rekstrar.

Til saman­burðar var EBITDA-af­koma félagsins um 121 milljón dala á sama tíma­bili í fyrra.

Töluverð tekjuaukning

Hagnaður á hlut sam­kvæmt aðlöguðum mæli­kvarða (e. adju­sted EPS) nam 2,46 dölum á fyrstu sex mánuðum ársins.

Félagið bók­færir þó tölu­vert tap á fyrstu tveimur árs­fjórðungum sem tengist ekki dag­legum rekstri.

Í árs­hluta­upp­gjöri JBT Marel, sem birtist eftir lokun markaða vestan­hafs í gær, segir að félagið sé að bóka tap vegna upp­gjörs bandarískra líf­eyris­skuld­bindinga, ráðgjafar­kostnað vegna sam­runa við Marel, niðurfærslna í tengalum við yfir­tökuna ásamt virðis­rýrnun og endur­skipu­lagningu í rekstri.

Hið bók­færða tap er sagt hafa tak­mörkuð áhrif á rekstur félagsins. Félagið segir rekstrar­grund­völlinn traustan, sér­stak­lega þegar litið er fram hjá tíma­bundnum áhrifum sam­einingar og líf­eyris­skuld­bindinga.

Tekjur JBT Marel námu 935 milljónum dala á öðrum árs­fjórðungi sem er tölu­verð aukning frá fyrra ári er þær námu 402 milljónum dala.

Sam­kvæmt JBT Marel ætti þetta að gefa ákveðna mynd af sam­legð með sam­runanum við Marel.

Rúm 15% framlegð á árinu

Pantanir á öðrum árs­fjórðungi námu 938 milljónum dala og félagið segir meira en helming tekna nú koma frá reglu­bundinni þjónustu, vara­hlutum og öðrum endur­teknum tekju­straumum. JBT Marel telur það styrkja rekstrar­grund­völl félagsins.

Hreinar skuldir félagsins námu um 1,8 milljörðum dala í lok fjórðungsins. Hlut­deild skulda miðað við rekstrar­hagnað (net debt/EBITDA) var komin niður fyrir 3,4, sem er lækkun um 0,6 frá árs­byrjun – eða þegar sam­runi við Marel gekk í gegn.

Fyrir­tækið gerir ráð fyrir að tekjur ársins í heild verði á bilinu 3.675 til 3.725 milljónir dala. Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir (e. adju­sted EBITDA) er áætlaður á bilinu 560 til 595 milljónir dala, sem sam­svarar um 15,25 til 16 pró­senta fram­legð.

Bók­fært tap, sam­kvæmt GAAP reiknings­skilum, er þó lík­legt vegna ein­skiptis­kostnaðar sem nemur saman­lagt yfir 500 milljónum dala á árinu.