Rekstrarhagnaður JBT Marel, sameinaðs félags Marel og bandaríska tæknifyrirtækisins JBT, fyrir afskriftir og einskiptiskostnað (e. adjusted EBITDA) nam 268 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins.
Tekjur félagsins á sama tímabili námu 1.789 milljónum dala en samkvæmt reikningsskilareglum í Bandaríkjunum (GAAP) var bókfært tap á tímabilinu þó 169,6 milljónir dala, einkum vegna kostnaðar sem tengist samruna félaganna og uppgjöri lífeyrisskuldbindinga í Bandaríkjunum.
Afkoma félagsins er sterk þegar horft er til hefðbundins rekstrar.
Til samanburðar var EBITDA-afkoma félagsins um 121 milljón dala á sama tímabili í fyrra.
Töluverð tekjuaukning
Hagnaður á hlut samkvæmt aðlöguðum mælikvarða (e. adjusted EPS) nam 2,46 dölum á fyrstu sex mánuðum ársins.
Félagið bókfærir þó töluvert tap á fyrstu tveimur ársfjórðungum sem tengist ekki daglegum rekstri.
Í árshlutauppgjöri JBT Marel, sem birtist eftir lokun markaða vestanhafs í gær, segir að félagið sé að bóka tap vegna uppgjörs bandarískra lífeyrisskuldbindinga, ráðgjafarkostnað vegna samruna við Marel, niðurfærslna í tengalum við yfirtökuna ásamt virðisrýrnun og endurskipulagningu í rekstri.
Hið bókfærða tap er sagt hafa takmörkuð áhrif á rekstur félagsins. Félagið segir rekstrargrundvöllinn traustan, sérstaklega þegar litið er fram hjá tímabundnum áhrifum sameiningar og lífeyrisskuldbindinga.
Tekjur JBT Marel námu 935 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi sem er töluverð aukning frá fyrra ári er þær námu 402 milljónum dala.
Samkvæmt JBT Marel ætti þetta að gefa ákveðna mynd af samlegð með samrunanum við Marel.
Rúm 15% framlegð á árinu
Pantanir á öðrum ársfjórðungi námu 938 milljónum dala og félagið segir meira en helming tekna nú koma frá reglubundinni þjónustu, varahlutum og öðrum endurteknum tekjustraumum. JBT Marel telur það styrkja rekstrargrundvöll félagsins.
Hreinar skuldir félagsins námu um 1,8 milljörðum dala í lok fjórðungsins. Hlutdeild skulda miðað við rekstrarhagnað (net debt/EBITDA) var komin niður fyrir 3,4, sem er lækkun um 0,6 frá ársbyrjun – eða þegar samruni við Marel gekk í gegn.
Fyrirtækið gerir ráð fyrir að tekjur ársins í heild verði á bilinu 3.675 til 3.725 milljónir dala. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (e. adjusted EBITDA) er áætlaður á bilinu 560 til 595 milljónir dala, sem samsvarar um 15,25 til 16 prósenta framlegð.
Bókfært tap, samkvæmt GAAP reikningsskilum, er þó líklegt vegna einskiptiskostnaðar sem nemur samanlagt yfir 500 milljónum dala á árinu.