Michelle Bowman, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna, hefur kallað eftir því að Seðlabankinn lækki vexti á næsta fundi peningastefnunefndarinnar í september en hún telur tilefni til að lækka vexti í þrígang fyrir árslok, að því er segir í frétt Bloomberg um málið.
Seðlabankinn ákvað í lok júlí að halda stýrivöxtum óbreyttum en Bowman og annar nefndarmaður, Christopher Waller, greiddu atkvæði gegn meirihlutanum og vildu lækka vexti um 0,25 prósentustig. Var það í fyrsta sinn frá árinu 1993 sem tveir nefndarmenn greiddu atkvæði gegn seðlabankastjóra.
Samkvæmt frétt Bloomberg vísaði Bowman til þess að aðstæður á vinnumarkaði hafi versnað þar sem atvinnuleysi jókst milli mánaða og mældist 4,2% í júlí en með vaxtalækkun strax í september væri hægt að snúa þeirri þróun við. Þá telur hún ólíklegt að verðhækkanir vegna tollastefnu Trumps leiði til aukinnar og þrálátari verðbólgu.
Mögulegt er að aðrir nefndarmenn peningastefnunefndarinnar taki í sama streng en þau Mary Daly, Neel Kashkari og Lisa Cook lýstu t.a.m. yfir áhyggjum af mögulegri kólnun vinnumarkaðarins í vikunni.