Markaðsvirði kínverska áfengisframleiðandans Kweichow Moutai lækkaði um 25 millljarða dollara eftir að fjölmiðill, sem vinnur í þágu forsetans Xi Jinping, ásakaði fyrirtækið að njóta góðs af spillingu. Financial Times segir frá .
Hlutabréf í Moutai, framleiðanda uppáhalds brennivíns Mao Zedong, sem hann notaði til að skála fyrir landsmönnum, höfðu hækkað um rúmlega 58% frá upphafi árs til síðasta mánudags, 13. júlí. Fyrirtækið er verðmætasti áfengisframleiðandi í heimi og jafnframt stærsta skráða fyrirtækið í Kína.
Fjölmiðillinn People‘s Daily, málpípa ríkisins, ásakaði Moutai um spillingu og mútur. Í greininni er vitnað í Yuan Renguo, fyrrum stjórnarformann Moutai, sem á að hafa sagt að sala í tengslum við spillingu væri „venjulegur hluti af viðskiptum,“ og að Miðstjórn agaeftirlitsins (e. Central Commission for Discipline Inspection), sem hefur leitt hertara eftirlit með spillingu síðan 2012, hafi ekki verið nógu sterkt til að skipta sér af viðskiptum fyrirtækisins.
Yuan var fjarlægður sem stjórnarformaður í maí 2018 og handtekinn fyrir spillingarsakir ári síðar. Fjöldi háttsettra starfsmanna Moutai hafa verið fangelsaðir síðastliðið ár, nú síðast tveir stjórnarmenn í síðustu viku sem voru rannsakaðir vegna „grunsemda um alvarleg aga- og lagabrot“, samkvæmt ríkisrekna fjölmiðlinum.