Árið 1967 í Kína, á hápunkti kínversku menningarbyltingarinnar, byrjaði hinn 19 ára Shen Zhirong að rannsaka nýjar aðferðir við að framleiða perlur. Hann bjó þá í bænum Deqing í Zhejiang-héraði en þar í kring fundust mikið af skeldýrum, þar sem perlur finnast.
Frá árunum 1975 til 1993 tileinkaði Zhirong ævi sinni rannsóknum og þróun á perlum sem varð meðal annars til þess að Kína varð stærsti perluframleiðandi í heiminum.
Shen, sem fæddist í kínversku borginni Shaoxing árið 1948, er í dag þekktur sem perlukóngur Kína en eftir að hafa eytt áratugum í að rannsaka nýjar perluframleiðsluaðferðir stofnaði hann fyrirtækið OSM Holding Group.
Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu snyrtivara, húðvara og skartgripa en þar sem aðeins 10% þeirra perla sem finnast eru nothæfar í skartgripi notar fyrirtækið megnið af perlum sínum í snyrtivörur.
MYND
Frá stofnun fyrirtækisins hefur OSM umturnað kínverska perluiðnaðinum og hefur jafnframt tryggt meira en 100 hugverkaréttindi á sínu sviði. Fyrirtækið náði einnig að sannfæra kínversku ríkisstjórnina um að opna fyrir frjálsa verslun perla á kínverskum markaði en fram að tíunda áratugnum var verslun þeirra mjög takmörkuð.
Með starfsemi sinni náði stofnandinn einnig að gjörbreyta efnahag heimabæjar síns. Á níunda áratug síðustu aldar, þegar fyrirtækið fór að færa út kvíarnar, byrjuðu margir fyrrum kínverskir bændur að vinna fyrir OSM og með því hækkuðu laun þeirra úr örfáum aurum í rúmlega 120 þúsund krónur á mánuði, miðað við núverandi gengi. Heimaborg Shen varð þá ein af tíu ríkustu borgum í Kína. Blaðamaður Viðskiptablaðsins heimsótti nýlega höfuðstöðvar fyrirtækisins.
Perlur myndast við náttúrulegar aðstæður þegar aðskotahlutur eins og sandkorn eða sníkjudýr festist innan í möttli skeldýrs. Þegar það gerist seyta frumur í ysta lagi möttulsins efni utan um aðskotahlutinn og hjúpa hann.

Efnið samanstendur aðallega af aragoníti og einnig af lífræna efnasambandinu albuminoid, en það finnst einnig í háu hlutfalli í ysta lagi í skel lindýra. Í náttúrunni tekur perlumyndun þó mörg ár að eiga sér stað en lokavaran er náttúruleg, falleg og litræn kúla.
Þegar búið er að veiða skeldýrið er það skorið og opnað og við blasa perlur sem eru fjarlægðar og hreinsaðar. Aðeins lítill hluti þeirra er notaður í skartgripi og er restin brotin niður í húðduft eða notuð til að framleiða krem og aðrar snyrtivörur.
Shen Zhirong, stofnandi OSM, er áttræður í dag en hefur þó engu gleymt. Hann vinnur aðallega sem áhrifavaldur á kínverskum samfélagsmiðlum og er með meira en 500 þúsund fylgjendur sem hlusta reglulega á hann tala um perlur og allt sem við kemur þeim.

Starfsemi fyrirtækisins er nú komin í hendur Yang Anquan en hann starfar í dag sem forstjóri OSM. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið 99% af öllu vörum fyrirtækisins séu seldar á kínverska markaðnum en bætir við að OSM sé að íhuga útflutning á vörum sínum.
Spurður hvaða lönd yrðu fyrir valinu og hvort fullkláraðir samningar, eins og fríverslunarsamningurinn milli Íslands og Kína, gætu liprað fyrir útflutningi þegar að því kæmi segir Yang að svo gæti verið.
„Til að byrja með væru helstu markaðir okkar í Suðaustur-Asíu en ég bind hins vegar miklar vonir við að sjá vörumerkið okkar á fleiri stöðum. Við viljum líka endilega sjá kínversku perlurnar okkar á íslenskum markaði en þangað til býð ég Íslendinga velkomna til Kína þar sem þeir geta verslað beint við okkur,“ segir Yang.