Kerecis hlaut í vikunni umhverfisverðlaun bandaríska innkaupasamlagsins Premier og afhenti forstjóri fyrirtækisins, Michael Alkire, verðlaunin á árlegri ráðstefnu fyrirtækisins sem fór fram á Washington D.C. svæðinu.
„Kolefnisspor Kerecis er 90% lægra en almennt gerist hjá framleiðendum heilbrigðisvara,“ sagði Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, sem tók við verðlaununum.
„Stór hluti stærstu sjúkrahúsa bandaríkjanna reiðir sig á innkaupakerfi Premier og þróunin er í auknum mæli að gefi vörum með lágt koltvísýringspor forgang í innkaupum. Verðlaunin styrkja því sölustarfsemi okkar í Bandaríkjunum.“
Kerecis fylgir sjálfbærnitilskipunum Evrópusambandsins, s.k. ESRS og CSRD reglum sem tilgreina kröfur um skýrslugerð og umhverfisbókhald fyrir fyrirtæki með fleiri en 1000 starfsmenn. Kerecis fellur undir samstæðu Coloplast og eiga kröfur tilskipananna þar með við um Kerecis.
Samkvæmt upplýsingum frá Kjartani Jónssyni hjá Kerecis, sem sér um umhverfisbókhald fyrirtækisins, eru líklega 10–15 önnur íslensk fyrirtæki sem þessar reglur gilda fyrir um í ár.
Kerecis hefur frá árinu 2022 haldið umhverfisbókhald, fylgt leiðbeiningum Nasdaq um sjálfbærniskýrslugerð og uppfyllt kröfur ISO staðalsins 14064 sem í auknum mæli er mikilvægur í stórinnkaupum á heilbrigðisvörum.
Premier er næst-stærsta innkaupasamlag Bandaríkjanna og nýtir stór hluti bandarískra sjúkrahúsa sér þjónustu fyrirtækisins. Bandarísk sjúkrahús kaupa vörur árlega fyrir um 10 þúsund milljarða króna gegnum kerfið.
Kerecis gekk frá samning við Premier árið 2022 og talsverður hluti tekna Kerecis í dag byggir á samningnum.