Fréttaneysla hefur breyst mikið á undanförnum tveimur áratugum vegna tilkomu netmiðla ýmiss konar, en hefðbundnir fjölmiðlar hafa yfirleitt farið halloka fyrir þeim.
Það er þó ekki svo að nýmiðlunin og viðtaka hennar sé öll á sömu lund, öðru nær enda tækniþróunin ör. Ef litið er til þróunarinnar í Bretlandi frá árinu 2013 sést vel hvernig snjallsímar hafa unnið gríðarlega á við viðtöku og neyslu frétta, en hefðbundnar tölvur — fartölvur sem borðtölvur — látið ört undan síga.
Notkun á spjöldum á borð við iPad virðist nokkuð stöðug, en aftur á móti hafa snjallhátalarar ekki náð sér á það strik, sem spáð var.