Hlutabréfaverð Kviku banka hefur hækkað mest allra skráðra félaga á árinu en gengi félagsins hefur nú farið upp um 16%.
Bankinn stendur um þessar mundir í samrunaviðræðum við Arion banka en þar á undan hafði Íslandsbanki einnig óskað eftir samrunaviðræðum við Kviku.
Gengi bankans hækkaði töluvert á meðan barist var um að hefja samrunaviðræður við bankann.
Aðeins þrjú önnur félög hafa hækkað um meira en 10% það sem af er ári en þeirra á meðal er fjarskiptafélagið Nova, sem hefur hækkað um 14%.
Í júnímánuði var greint frá því að greiningarfyrirtækið Akkur verðmeti hlutabréf Nova á 7,32 krónur á hlut sem er um 50% hærra en núverandi 4,86 króna markaðsgengi hlutabréfa fjarskiptafélagsins.
Akkur segir að Nova sé augljós yfirtökukostur á fjarskiptamarkaðnum.
Hampiðjan hefur síðan hækkað um 13% á árinu en félagið hefur verið í vexti á árinu og keypti nú nýverið ástralska fyrirtækið International Rope Braid (IRB) sem er á Gold Coast rétt fyrir sunnan Brisbane á austurströnd Ástralíu.
Arion banki hefur síðan hækkað um 12,5% á árinu en gengið hefur verið á stöðugu skriði allt árið þrátt fyrir að hækka ekki mikið innan dags.
Síðastliðið ár hefur gengi Arion banka hækkað um tæp 43% og stendur það í 174,5 krónum þegar þetta er skrifað.