Langtíma fjármögnunarkostnaður Frakklands er nú að verða svipað hár og hjá Ítalíu í fyrsta sinn síðan í fjármálahruninu árið 2008.
Ávöxtunarkrafa á tíu ára frönskum ríkisskuldabréfum Frakklands hefur hækkað upp fyrir 3% á undanförnu ári, sem Financial Times rekur m.a. til pólitísks óstöðugleika og áhyggjur af opinberum fjármálum.
Nú munar aðeins 0,14 prósentustigum á ávöxtunarkröfu tíu ára ríkisskuldabréfa Frakklands og Ítalíu. Ávöxtunarkrafa ítalskra ríkisskuldabréfa hefur lækkað eftir að viðhorf fjárfesta til ríkisfjármála í Ítalíu hefur batnað talsvert undir stjórn Giorgiu Meloni forsætisráðherra, að því er segir í frétt FT.
Minni munur á fjármögnunarkostnaði ríkjanna er sagður merki um að Frakkland sé ekki lengur í jafnsterkri stöðu eftir að hafa verið álitnir einn af öruggustu lántakendum innan álfunnar í áraraðir.
Jafnframt sé afstaða fjárfesta til Ítalíu að batna þrátt fyrir að ítalska ríkið sé afar skuldsett. Opinberar skuldir í Ítalíu eru um 140% af vergri landsframleiðslu í Ítalíu.