Eigendur FÍ fasteignafélags slhf., sem eru að mestu leyti íslenskir lífeyrissjóðir, hafa ákveðið að hefja söluferli á félaginu, að því er kemur fram í tilkynningu. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur umsjón með söluferlinu.

Samtals er eignasafn FÍ fasteignafélags um 25 þúsund brúttó fermetrar en fjárfestingaeignir félagsins voru bókfærðar á 13,3 milljarða króna í árslok 2022.

Eignasafn félagsins telur 11 fasteignir og samanstendur af fasteignunum við Amtmannsstíg 1, Ármúla 1, Álfheimum 74, Bankastræti 2, Bankastræti 7, Borgartúni 25, Hverfisgötu 103, Lækjargötu 3, Laufásveg 31, Víkurhvarfi 3 og Þverholti 11.

Í ársreikningi FÍ fasteignafélags kemur fram að félagið hóf fjárfestingar í maí 2013. Fjárfestingartímabili félagsins lauk í nóvember 2016 en þá hafði verið fjárfest í framangreindum 11 fasteignum. Ábyrgðaraðili félagsins er FÍ fasteignafélag GP ehf., sem er í meirihlutaeigu Kviku.

190 milljóna tap í fyrra

FÍ fasteignafélag tapaði 190 milljónum króna árið 2022, samanborið við 271 milljónar hagnað árið 2022. Verri afkomu má aðallega rekja til minni matsbreytingar fjárfestingareigna og auknum fjármagnsgjöldum.

Rekstrartekjur félagsins námu 888,5 milljónum sem er 26% aukning frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar jókst úr 419 milljónum í 598 milljónir á milli ára.

Útleiguhlutfall félagsins í lok tímabils var 98,4% og „nánast allir leigjendur í skilum“, að ‏því er segir í ársreikningi sem birtur var á dögunum.

Heildareignir félagsins námu 13,8 milljörðum króna í lok árs 2022. Eigið fé félagsins nam 4,8 milljörðum og eiginfjárhlutfall var 34,6%.

Stærstu hluthafar FÍ fasteignafélags í árslok 2021

Hluthafi Hlutur
LIVE 19,9%
LSR (A- og B-deild) 19,9%
Gildi 15,9%
Birta 10,1%
Stapi 7,6%
SL 7,1%
Festa 7,1%
Almenni 5,0%
Lífsverk 3,0%
Brú 2,5%
Teknetín 2,0%
Heimild: Ársreikningur FÍ Eignarhaldsfélags, móðurfélags FÍ fasteignafélags, fyrir árið 2021.