Markaðir í Chile féllu skarpt í gær eftir að Gabriel Boric, sem álitinn er til vinstri, vann nokkuð öruggan sigur í forsetakosningum sem fram fóru á sunnudag.

Chileski pesóinn féll um 3,5% gagnvart Bandaríkjadal í gær og er nú í lægstu lægðum sögulega, og hlutabréf í kauphöll höfuðborgarinnar Santiago féllu um 6%. Gengi hlutabréfa kanadíska námufyrirtækisins Lundin Mining féll um nær 17% í Kauphöllinni í Toronto eftir að fréttir bárust af kjöri Boric.

Boric er fyrrum mótmælaleiðtogi og hefur viðrað nokkuð róttækar hugmyndir um efnahagsumbætur. Chile hefur hingað til haft einhverja frjálsustu markaði í Suður-Ameríku, og almennt þótt aðlaðandi í augum erlendra fjárfesta og atvinnulífsins almennt.

Fjárfestar eru í frétt Wall Street Journal um málið sagðir óttast áðurnefndar umbætur, sem Boric hafi fengið nokkuð sterkt umboð til að ráðast í með 56% atkvæða, og erfitt geti reynst fyrir hann að skorast undan.

Hann er þó sagður hafa leitað nokkuð inn á miðjuna á síðustu metrum kosningabaráttunnar gegn lögfræðingnum José Antonio Kast. Erfitt gæti reynst að sætta væntingar þeirra á miðjunni sem kusu hann út á þann málflutning við þá á vinstri vængnum sem hafi stutt hann lengi.