Carbfix hf., sem þróar og rekur lausnir til að fanga og binda koldíoxíð í bergi, lauk rekstrarárinu 2024 með skuldir upp á 43,9 milljónir evra, um 6,3 milljarða króna á gengi dagsins, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.
Skuldir félagsins jukust um 79% á milli ára en félagið skuldaði 24,5 milljónir evra í árslok 2023.
Langtímaskuldir við Orkuveitu Reykjavíkur (OR), stærsta eiganda Carbfix, námu 30,6 milljónum evra í árslok 2024, samanborið við 14,6 milljóna skammtímaskuld árið áður.
Orkuveitan hefur því veitt félaginu verulegt fjármagn til rekstrar og breytt skammtímaskuldinni í langtímalán.
Carbfix tapaði 8,1 milljón evra sem samsvarar tæpum 1,2 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Uppsafnað tap félagsins síðustu tvö ár er 11,3 milljónir evra. Handbært fé var 340 þúsund evrur í árslok.
Í árslok 2023 var eigið fé félagsins jákvætt upp á 4,7 milljónir evra en í lok árs í fyrra var það neikvætt um 3,4 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall Carbfix var -8,4% í lok árs 2024.
Þar sem stærstur hluti skulda Carbfix er til OR, sem er í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar, felur skuldsetningin í sér beina fjárhagslega áhættu fyrir eigandann og óbeint fyrir borgarbúa.
Ef tekjuflæði frá nýjum verkefnum verður hægara en áætlað er gæti þurft að leita frekari fjármögnunar eða endurskipulagningar lána. Horfur félagsins byggja á því að stór verkefni skili af sér rekstrartekjum frá og með 2025.
Árangur ræðst af því að félagið ljúki samningum og að framkvæmdir við stór verkefni gangi samkvæmt áætlun.
Tafir á leyfisveitingum eða lengri framkvæmdatími gætu aukið rekstrarkostnað án þess að tekjur kæmu á móti, sem myndi auka þörf fyrir frekara lánsfé og draga úr arðsemi verkefnanna.
Tilgangurinn með stofnun Carbfix hf. árið 2022 var meðal annars að hægt yrði að selja hluti í félaginu en miðað við fjárhagsstöðu, skuldir og eigið fé er ljóst að bráðlega þarf annaðhvort að selja hluti í félaginu eða auka lánveitingar.
Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir í samtali við Viðskiptablaðið að fjárhagsleg aðkoma Orkuveitunnar að Carbfix hafi náð þolmörkum.
Hægt er að lesa ítarlega frétt um ársreikning Carbfix hér.