Car­b­fix hf., sem þróar og rekur lausnir til að fanga og binda kol­díoxíð í bergi, lauk rekstrarárinu 2024 með skuldir upp á 43,9 milljónir evra, um 6,3 milljarða króna á gengi dagsins, sam­kvæmt ný­birtum árs­reikningi.

Skuldir félagsins jukust um 79% á milli ára en félagið skuldaði 24,5 milljónir evra í árs­lok 2023.

Langtíma­skuldir við Orku­veitu Reykja­víkur (OR), stærsta eig­anda Car­b­fix, námu 30,6 milljónum evra í árs­lok 2024, saman­borið við 14,6 milljóna skammtíma­skuld árið áður.

Orku­veitan hefur því veitt félaginu veru­legt fjár­magn til rekstrar og breytt skammtíma­skuldinni í langtímalán.

Car­b­fix tapaði 8,1 milljón evra sem sam­svarar tæpum 1,2 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Upp­safnað tap félagsins síðustu tvö ár er 11,3 milljónir evra. Hand­bært fé var 340 þúsund evrur í árs­lok.

Í árs­lok 2023 var eigið fé félagsins jákvætt upp á 4,7 milljónir evra en í lok árs í fyrra var það neikvætt um 3,4 milljónir evra. Eigin­fjár­hlut­fall Car­b­fix var -8,4% í lok árs 2024.

Þar sem stærstur hluti skulda Car­b­fix er til OR, sem er í meiri­hluta­eigu Reykja­víkur­borgar, felur skuld­setningin í sér beina fjár­hags­lega áhættu fyrir eig­andann og óbeint fyrir borgar­búa.

Ef tekju­flæði frá nýjum verk­efnum verður hægara en áætlað er gæti þurft að leita frekari fjár­mögnunar eða endur­skipu­lagningar lána. Horfur félagsins byggja á því að stór verk­efni skili af sér rekstrar­tekjum frá og með 2025.

Árangur ræðst af því að félagið ljúki samningum og að fram­kvæmdir við stór verk­efni gangi sam­kvæmt áætlun.

Tafir á leyfis­veitingum eða lengri fram­kvæmda­tími gætu aukið rekstrar­kostnað án þess að tekjur kæmu á móti, sem myndi auka þörf fyrir frekara láns­fé og draga úr arð­semi verk­efnanna.

Til­gangurinn með stofnun Car­b­fix hf. árið 2022 var meðal annars að hægt yrði að selja hluti í félaginu en miðað við fjár­hags­stöðu, skuldir og eigið fé er ljóst að bráð­lega þarf annaðhvort að selja hluti í félaginu eða auka lán­veitingar.

Hildur Björns­dóttir borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins segir í sam­tali við Við­skipta­blaðið að fjár­hags­leg aðkoma Orku­veitunnar að Car­b­fix hafi náð þol­mörkum.

Hægt er að lesa ítar­lega frétt um árs­reikning Car­b­fix hér.