Fjarskiptafélagið Nova greiddi 350 milljónir króna fyrir 20% hlut í Dineout á öðrum ársfjórðungi. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Nova sem birtur var eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Tilkynnt var um kaup Nova í Dineout í apríl síðastliðnum.
Kaupverðið gefur til kynna að Dineout, sem var stofnað árið 2017, hafi verið metið á 1.750 milljónir króna í viðskiptunum.
Samhliða kaupunum var undirritaður samningur um ádráttarlán frá Nova að fjárhæð allt að 250 milljónir króna með breytirétti í hlutafé, en samningarnir gefa Nova kost á að auka hlut sinn í félaginu á næstu árum.
Þegar tilkynnt var um fjárfesting Nova í Dineout kom fram að fyrirtækin hyggjast vinna saman að vöruþróun og nýjum lausnum.
Nova sagði markmiðið með fjárfestingunni vera að styrkja enn frekar „FyrirÞig“ í Nova-appinu sem sé stærsti vildarklúbbur landsins. Kaupin fælu í sér mikil tækifæri til að auka vöruframboð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja auk þess sem unnið verði unnið að vöruþróun sem byggi á núverandi lausnum bæði Dineout og Nova, ásamt þróun á nýjum vörum.
„Við höfum stigið fyrstu skrefin í spennandi samstarfi með Dineout og kynnt fyrir viðskiptavinum okkar nýjungar sem gera þeim kleift að fá enn meira fyrir peninginn,“ segir Margrét Tryggvadóttir, fráfarandi forstjóri Nova, í uppgjörstilkynningu félagsins í dag.
„Það er alltaf ánægjulegt og gerir dansgólfið enn betra þegar viðskiptavinir okkar finna virði og gleði í því að vera í viðskiptum hjá okkur og það er Nova í hnotskurn.“
Dineout var stofnað árið 2017 með það markmið að þróa borðabókunarkerfi fyrir íslenska veitingastaði. Síðan þá hefur fyrirtækið hannað 16 hugbúnaðarlausnir, þar á meðal kassakerfi, matarpöntunarkerfi, rafræn gjafabréf, viðburðakerfi og sjálfsafgreiðslulausnir, sem saman mynda stærsta markaðstorg landsins fyrir veitingaupplifanir.
Dineout hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2024 en félagið velti 409 milljónum króna árið 2023, samanborið við 179 milljónir árið 2022. Hagnaður félagsins á árinu 2023 var tæplega 40 milljónir króna. Eignir félagsins í árslok 2023 námu 433 milljónum og eigið fé var um 261 milljón.
Inga Tinna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Dineout, er stærsti hluthafi félagsins í gegnum ITS Holding ehf. með 25,2% hlut samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins. Aðrir hluthafar eru Teya , sem hét áður SaltPay, Tix miðasala ehf. og Magnús Björn Sigurðsson.
Inga Tinna var í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, sérblaði Viðskiptablaðsins, í febrúar.