Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska Sjávarklasann, varar ríkisstjórnina við að velja atvinnugreinar sem eiga að leiða hagvöxt hér á landi og tala niður aðrar greinar. „Ekki byrja að velja!“ skrifar Þór í umsögn við áform ríkisstjórnarinnar um atvinnustefnu.

„Ís­lendingar hafa allt­of oft farið illa út úr því að stjórn­mála­menn fái of­trú á til­teknum at­vinnu­greinum og at­vinnu­svæðum og leggi kapp á að styðja þau með skatt­fé.“

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær tilkynnti forsætisráðuneytið um framkvæmd samráðsferlis um áformaða atvinnustefnu Íslands til ársins 2035. Jafnframt birti ráðuneytið drög að inngangi atvinnustefnunnar.

Ríkisstjórnin kallar nú eftir endurgjöf um áformin. Í samráðsgátt leggur ráðuneytið fram þrjár spurningar fyrir umsagnaraðila, sem snúa að því hvaða markmið og lykilmælikvarða ætti að styðjast við, hvaða aðgerðir stjórnvöld geta gripið til og hvaða útflutningsgreinar geta vaxið mest á næstu tíu árum og náð árlegum útflutningi sem nemur tugum milljarða á ári.

„Spurningin um hvaða greinar geti búið til „tugi milljarða” er ekki gagnleg og hana þarf að kveðja,“ segir Þór.

„Nýjar greinar spretta oft upp þar sem enginn bjóst við, sérstaklega þegar tækniframfarir, breyttar þarfir og skapandi einstaklingar fá lausan tauminn. Stjórnmálin eiga fremur að treysta grunninn, skapa almenn skilyrði og tala upp athafnamennsku og nýsköpun - ekki velja fyrir okkur eða tala niður atvinnugreinar!“

Sýn um „gervilandið Ísland“

Hvaða tækifæri fyrir þjóðina varðar leggur Þór til að stjórnvöld leggi áherslu á að laða erlenda sérfræðinga í þekkingargreinum til landsins, með það fyrir augum að efla útflutning.

„Einn veigamesti þátturinn í eflingu atvinnulífsins er að hvetja erlenda sprota, -fyrirtæki og -þekkingarstarfsfólk að setjast að hérlendis. Hér getur atvinnulífið sjálft tekið af skarið með kynningar erlendis á Íslandi sem nýsköpunarlandi.

Íslensk stjórnvöld þurfa að koma með eins konar hraðbrautir eins og Írar og fleiri þjóðir hafa komið fram með þar sem þekkingarstarfsfólki og fyrirtækjum er auðveldað að komast hratt og vel inn í íslenskt atvinnulíf og hefja starfsemi og búsetu hérlendis.“

Þór sér fyrir sér að Ísland geti orðið öflugur þátttakandi í nýtingu gervigreindar á ýmsum sviðum, m.a. í bláa hagkerfinu. Í þeim efnum skipti miklu að gervigreind sé tekin inn í öll skólastig að hans mati.

„Íslensk fyrirtæki geta sérhæft sig í að þróa litlar, sérhæfðar gervigreindarlausnir sem leysa ýmis vandamál fyrir alþjóðamarkað. Til þess þurfa sprotar meiri stuðning til nýsköpunar og meiri þátttöku áhættufjárfesta. Það er fyrst og fremst atvinnulífið sem þarf að taka hér forystu en stjórnvalda að efla sprota en vera að öðru leyti sem minnst fyrir.“