Sveitarfélagið Ölfus kærði ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að hafna beiðni sveitarfélagsins um endurmat á fasteignamati iðnaðarhúsnæðis í Þorlákshöfn fyrir árið 2021. Kærandi gerði kröfu um að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og fasteignamatið tekið til endurskoðunar með hækkun í huga. Yfirfasteignanefnd staðfesti ákvörðun Þjóðskrár um að ekki hefði verið tilefni til endurmats á fasteignamatinu.

Til stuðnings vísaði kærandi til þess að fasteignamat atvinnuhúsnæðis hefði aukist mun meira í sambærilegum þéttbýlisstöðum, s.s. Grindavík og Hveragerði. Þannig hefðu hækkanir á fasteignamati iðnaðarhúsnæðis í Þorlákshöfn verið um 1,83% á árinu 2020, þegar meðalhækkun atvinnuhúsnæðis á landinu öllu var 6,9% og hækkun í Hveragerði og Grindavík í kringum 6,6%. Þá hafi meðalhækkun atvinnuhúsnæðis á landinu öllu á árinu 2021 verið 1,7%, en á sama tíma ekkert hækkað í Þorlákshöfn og hækkað umtalsvert í Grindavík og Hveragerði.

Auk þess benti kærandi á að Þorlákshöfn ætti stóra og fullkomna höfn sem gerir atvinnuhúsnæðið verðmætara, og stórt iðnaðar- og þjónustusvæði hefði einnig verið skipulagt í bæjarfélaginu.

Ekki tilefni til endurmats á fasteignamati

Þjóðskrá hafnaði beiðni kæranda um endurmat á fasteignunum. Vísaði stofnunin til þess að engin gögn hefðu komið fram sem sýndu að fasteignamatið ætti að vera hærra. Auk þess hafi vöxtur kaupsamninga á iðnaðarhúsnæði í Þorlákshöfn verið lítill og samningar mun færri en í Grindavík og Hveragerði.

Jafnframt gæfu upplýsingar til kynna að iðnaðarhúsnæði í Þorlákshöfn hafi í einhverjum tilvikum verið selt undir fasteignamati. Þjóðskrá segir auk þess óraunhæft að bera saman Þorlákshöfn við Grindavík og Hveragerði. Mikill munur er á bæjarfélögunum þremur ef litið er til fjölda kaupsamninga á iðnaðarhúsnæði, söluverðs og meðalfermetraverðs. Kærandi kærði ákvörðunina til yfirfasteignamatsnefndar.

Eftir að hafa fengið frekari upplýsingar frá Þjóðskrá staðfesti yfirfasteignamatsnefnd þá ákvörðun Þjóðskrár að ekki væri tilefni til endurmats á fasteignamati iðnaðarhúsnæðis í Þorlákshöfn fyrir árið 2021.