Upplýsingatæknifyrirtækið Origo skilaði 1,5 milljarða króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við 252 milljóna hagnað árið áður. Helsti munurinn skýrist af áhrifum hlutdeildarfélaga sem voru jákvæð um 966 milljónir á síðasta ári en 131 milljón árið áður. Origo, sem birti ársuppgjör í gærkvöldi, hefur hækkað um tæp 5% í fyrstu viðskiptum dagsins..
Velta félagsins jókst um 6,6% á milli ára og nam 18,2 milljörðum. Tekjur af notendabúnaði jukust um 17% en á þessu sviði jókst velta af netverslun um 51%. Þá var 24% vöxtur var í eigin hugbúnaði. Hins vegar drógust tekjur saman í rekstrarþjónustu ár árinu vegna minni vörusölu og aflagðrar þjónustu. Framlegð Origo jókst um 14% á milli ára og var 4,8 milljarðar.
Eignir Origo voru bókfærðar á 15,1 milljarð króna í lok síðasta árs, samanborið við 12,4 milljarða í árslok 2020. Eigið fé var 8,6 milljarðar og skuldir 6,5 milljarðar. Eiginfjárhlutfall Origo hækkaði úr 56,7% í 56,9% á milli ára.
Origo tilkynnti í gærkvöldi um að stjórn félagsins hafi ákveðið að hefja endurkaup á allt að 4,35 milljónum hlutum, en fjárhæð endurkaupanna getur numið allt að 300 milljónum króna. Endurkaupaáætlunin er í gildi til 31. júlí næstkomandi. Hluthafar Origo samþykktu í mars 2021 að veita stjórn félagsins heimild til að kaupa allt að 10% af hlutafé þess til nætu átján mánaða.
Tekjur Tempo aukast um 39%
Tekjur hlutdeildarfélagsins Tempo á síðasta ári voru um 45 milljónir dala eða um 5,6 milljarðar króna miðað við núverandi gegni krónunnar og jukust um 39% frá fyrra ári. Í fjárfestakynningu Origo kemur fram að fjöldi stærri viðskiptavina, þ.e. þeir sem eru með fleiri en þúsund notendur, hafi aukist um meira en 10%. Tempo greiddi arð til Origo að fjárhæð 108 milljónum króna.
Origo átti 40,4% hlut í Tempo í árslok 2021 sem var bókfærður á nærri 4 milljarða króna. Til samanburðar færði Origo 43% hlut í Tempo á 2,9 milljarða króna í árslok 2020. Eignarhlutur Origo í Tempo lækkað á milli ára við kaup Tempo á hugbúnaðarfyrirtækinu ALM Works í lok síðasta árs. Tempo keypti einnig kanadíska fyrirtækið Roadmunk í nóvember.
Sjá einnig: Tempo kaupir ALM Works
Í uppgjörinu kemur einni gram að netöryggisfyrirtækið Syndis, sem Origo keypti síðasta vor, hafi sett upp starfsstöð í Póllandi með það að markmiði að auka afkastagetu og sinna vöktun yfir allan sólarhringinn. Með því á að tryggja betur viðbrögð við öryggisveikleikum og netárásum.
Jón Björnsson forstjóri Origo:
„Árangur Origo árið 2021 er frábær. Við lögðum upp með 2021 sem ár nýrra áherslna þar sem við ýttum undir frekari sjálfstæði teymana hjá okkur, lögðum hart að okkur að gera vöruframboðið sterkara og hnitmiðaðra og jukum áherslu á viðskiptaþróun og markaðsmál. Samfélagsmálin hafa verið okkur hugleikin og við höfum sett áherslur þar sem við getum skilað árangri. Horfum við sérstaklega til netöryggis, jafnréttis kynjanna, aukins heilbrigðis og umhverfismála. Við sjáum strax árangur af þessum aðgerðum starfsfólks Origo. Tekjur félagsins aukast um 6,6% á árinu og afkoma félagsins batnar umtalsvert og skilar reksturinn 8,8% ebitda á móti 6,3% á s.l. ári. Á mörgum sviðum erum við kominn með afbragðsrekstur. Fjárfesting félagsins í Tempo er á spennandi tímamótum og lærdómsríkt að fylgja félaginu í gegnum verulega stækkun.
Áfram er góð eftirspurn eftir lausnum og vörum í notendabúnaði og jukust tekjur Notendalausna um 17% fyrir árið 2021. Frábær afkoma er hjá einingunni og EBITDA um 9%. Nýjar söluleiðir, sterk netverslun og Tölvutek eru lykilatriði í þessari tekjuaukningu ásamt því að grunnreksturinn hefur verið sterkur þrátt fyrir tafir á vöruafhendingu og vöruskort á alþjóðavísu. Þá má áfram búast við einhverjum áskorunum á aðfangahliðinni bæði hvað varðar vöruframboð sem og verðhækkanir. Félagið hefur sótt fram í búnaði tengdum þjónustu og stafrænni aðgreiningu er tengist aukinni sjálfvirkni, sjálfsafgreiðslu, fjarfundum auk annarra stafrænna vara sem auka hagkvæmni og lækka rekstrarkostnað viðskiptavina.
Þjónustulausnir Origo eru í umbreytingarfasa þar sem unnið er að því að breyta eldri tekjustofnum og einfalda vöruframboð og þjónustu að þörfum viðskiptavinarins. Tekjur drógust saman um 8% á árinu vegna minni innviðasölu og aflagðrar þjónustu. Afkoma batnar hinsvegar um 74% á árinu. Breyttar áherslur í þjónustuframboði eru því farnar að skila sér. Mikið hefur áunnist í bættri þjónustu. Áhersla hefur verið lögð á að beita sjálfvirkni í rekstrinum og hefur einingin náð góðum árangri í að sjálfvirknivæða viðbrögð í vöktun og kerfisrekstri sem og að greina, aðlaga og sjálfvirknivæða almenna viðskiptaferla. Sjáum við fram á að geta boðið þessa þekkingu í meira mæli til viðskiptavina sem hluta af okkar þjónustuframboði.
Syndis hefur aukið verulega getu til að sinna 24/7 vöktun með uppsetningu á starfsstöð í Póllandi. Félagið hefur dafnað einstaklega vel s.l. mánuði og þríþætt áhersla félagins innan ráðgjafar, öryggisvöktunar auk hugbúnaðargerðar innan öryggisgeirans er spennandi, enda netöryggi og öryggisvitund bæði kjarnasvið sem og hluti af samfélagsábyrgð Origo.
Velta Origo í hugbúnaðargerð heldur áfram að vaxa og nálgast félagið nú þá stærð í hugbúnaðagerð sem það hafði fyrir söluna á meirihluta í Tempo. Veltuaukning síðasta árs var 8,3% og EBITDA 9,6% . Veltuauking í eigin hugbúnaði var um 24%.
Í Heilbrigðislausnum hafa Covid tengd verkefni sýnt fram á tækifæri stafrænnar þróunar í heilbrigðiskerfi Íslands með því að ná fram aukinni framleiðni ásamt því að bæta þjónustu og aðgengi notenda að þjónustu og upplýsingum. Í lok ársins hófust prófanir á lausn sem heldur utanum skimanir fyrir leghálskrabbameini og er stefnt að hún verði tekin í notkun í byrjun árs. Þessi lausn byggir að stórum hluta á lausnum sem þróaðar voru fyrir Covid próf og bólusetningar. Við sjáum mikil tækifæri í að nota betri tækni til betra lífs á heilbrigðisgeiranum með sterkum lausnum sem létta undir greininni og þeim sem sækja þjónustuna.
Origo hefur sterkar rætur í nýsköpun og vill fjárfesta í vexti nýsköpunar á öllum sviðum félagsins. Fjölmargar nýjar lausnir litu dagsins ljós á árinu. Við sáum nýjar og endurbættar vörur koma á markað, eins og Léttský hjá Rekstrarþjónustu og nýja kynslóð rafrænna hillumiða hjá Notendalausnum. Origo hefur einnig í töluverðan tíma verið í uppbyggingarfasa með ofurtölvulausn í samstarfi við erlenda aðila. Undanfarna mánuði hafa prófanir verið í gangi að sannreyna lausnina. Hér á ferðinni spennandi nýsköpunartækifæri þar sem við munum fjárfesta í áframhaldandi uppbyggingu. Mest er nýsköpunin í eigin hugbúnaði, en eins og áður segir óx velta félagsins þar um 24% á árinu. Origo hefur ætíð verið sterkt í þróun á grunnkerfum í fyrirtækjarekstri. Aukin þróun í Business Central skilaði sér í aukinni sölu á Business Central skýjalausnum á ársfjórðungnum sem og sölu og ráðgjöf á SAP S/4 HANA. Vöruþróun síðustu mánaða er að skila góðum tækifærum á því sviði. Banka- og greiðslutengdar lausnir eru í stöðugri þróun og hefur Origo uppfært nýtt afgreiðslukerfi hjá tveimur íslenskum bönkum. Við höfum einning þróað nýja vöruhúsakerfislausn fyrir lítil og meðalstór vöruhús og fer sala á því vel af stað.
Við munum ýta undir frekari nýsköpun en samhliða því að gera kröfu um árangur með tímalínu og nýtingu fjármagns. Við teljum okkur hafa mikil tækifæri að gera betur á þessum markaði og höfum séð að þau skref sem við höfum tekið þvert á lausnir eru að skila framförum. Sala á Kjarna mannauðs- og launakerfi sem Origo hóf þróun á 2015 gengur vel og finnum við fyrir aukinni eftirspurn, en notendur Kjarna eru mörg stærstu fyrirtæki og sveitarfélög landsins. Góðar viðtökur á markaði gefa byr undir báða vængi og því verður áfram unnið markvisst við þróun á nýrri virkni og lausnum á þessu sviði. Við höfum fjárfest verulega í þremur lausnum í ferðaiðnaði án þess að ná að uppskera miðað við möguleika þeirra vegna covid-19 og samdráttar í ferðaiðnaði. Við höfum hingað til ekki dregið af okkur í þróun á þessum vörum og settum t.d. nýtt markaðstorg fyrir ferðaskrifstofur á markað undir lok árs. Við vonumst til að tekjur fari að skila sér með auknum ferðaiðnaði þegar fram í sækir. Gæðakerfislausnin CCQ er búin að tryggja sig í sessi sem lausnin þegar kemur að því að tryggja skjalafestingu og hlítingu við kröfur eins og ISO, GDPR, jafnlaunavottun og aðra staðla, lög og reglugerðir. Þá hefur Origo styrkt sig mikið á s.l. tveimur árum í ráðgjöf og vinnu við stafræn verkefni fyrirtækja og stofnanna og starfa nú rúmlega 60 manns hjá Origo eingöngu við að aðstoða viðskiptavini í stafrænni umbreytingu. Við teljum okkur geta vaxið á þessu sviði og stafræn þróun orðið kjarnasvið hjá Origo.
Síðasti ársfjórðungur er líklega einn sá mest spennandi hjá Tempo. Rekstur Tempo gekk frábærlega á árinu og skilaði Tempo, án tekna frá Roadmunk og ALM, 39% tekjuvexti og 59% aukningu í EBITDA, að teknu tilliti til einskiptisliða. Félagið keypti seint á fjórðungnum tvö önnur félög og styrkti þar með viðskiptavinagrunn sinn og vöruframboð mikið innan þess markaðar sem félagið starfar á. Heildarvelta Tempo 2021 er um 45 milljónir USD. Kaup Tempo á Roadmunk gefur því tækifæri að komast inn á markað fyrir „roadmapping“ hugbúnað á meðan kaup Tempo á ALM Works kemur Tempo inn á markaðinn fyrir hugbúnað í verkefnastýringu. Starfsmannafjöldi Tempo er því kominn hátt í 200 með starfsemi í fimm borgum og yfir 25.000 viðskiptavini um allan heim. Framundan er því áhersla lögð á að að ná verðmætum út úr samvinnu félaganna þriggja. Markmið fyrirtækisins er að nýta styrk hverrar vöru til að vaxa en samhliða að nýta samlegðaráhrif í kostnaði og mögulegri tekjuaukningu. Einnig verður hægt að nálgast viðskiptavini með sterkara vöruframboð og heildrænna en áður.
Horfur í rekstri eru ágætar. Við erum komin langt með vinnu okkar í að skýra hvað Origo stendur fyrir, styrkja og uppfæra áherslur í kjarnarekstri og veita teymum sjálfstæði til að vaxa. Við munum aðlaga rekstur okkur að þeim tækifærum og búa þannig um hlutina að félagið sé í stakk búið til að vera leiðandi aðili í breytingum á upplýsingatæknimarkaði. Árið fer vel af stað og þrátt fyrir ýmsar hindranir sem umhverfið er að hafa á aðfangakeðjuna og ferðaiðnaðinn rennum við nokkuð bjartsýn af stað inn í árið.
Við höfum tekið ákvörðun að gera breytingar á fjárfestakynningum á komandi ári og í stað hefðbundinna kynninga á fyrsta og þriðja ársfjórðungi, munum við senda út upplýsingar um reksturinn í formi fréttatilkynningar eins og við höfum gert en bjóða upp á kynningu á einstökum rekstrarþætti félagsins á þeim tímapunktum í stað hefðbundinna kynninga. Við teljum að fjárfestar nái þannig að kynnast félaginu betur. Fjárfestakynningar annars og fjórða ársfjórðungs verða með hefðbundnu sniði.“