Það var tiltölulega rólegt á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag en alls nam veltan á aðalmarkaði Kauphallarinnar 2,9 milljörðum króna. Níu félög á aðalmarkaðnum lækkuðu um 0,8% eða meira og sex voru græn í viðskiptum dagsins.
Smásölufyrirtækin Hagar og Festi lækkuðu bæði um meira en 1,3% í dag, þó í lítilli veltu. Sömu sögu er að segja um útgerðarfélögin Síldarvinnsluna og Brim sem féllu bæði um meira en 1%. Þá lækkuðu bankarnir þrír allir í viðskiptum dagsins.
Lækkanir kunna að skýrast að hluta til af alþjóðlegri þróun en hlutabréf erlendis lækkuðu víða í dag við aukna spennu á milli bandarískra og rússneskra stjórnvalda vegna stöðunnar á landamærum Úkraínu og Rússlands, að því er kemur fram í umfjöllun Reuters . S&P 500 vísitalan lækkaði um hálft prósent í dag og Stoxx Europe 600 vísitalan féll um 0,9%.
Hlutabréfaverð Eimskips hækkaði um nærri eitt prósent í 588 milljóna veltu og stendur nú í 540 krónum á hlut. Eimskip, sem skilaði ársuppgjöri eftir lokun Kauphallarinnar í gær, hagnaðist um 5,7 milljarða króna og er það methagnaður í sögu flutningafélagsins. Gengi Eimskips hefur nú hækkað um 7% í ár og hefur aldrei verið hærra.
Sjá einnig: Methagnaður hjá Eimskipi
Síðustu daga hefur verið óvenju mikil velta með hlutabréf flugfélagsins Play, sem skráð er á First North-markaðnum. Gengi Play hækkaði um 1,2% í 105 milljóna veltu í dag og stendur nú í 25,7 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Play hefur nú hækkað um um 9,8% frá lokun Kauphallarinnar á mánudaginn.