Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,3% í 3,3 milljarða viðskiptum í dag. Hlutabréfaverð fasteignafélagsins Regins hækkaði um 2,4% í 435 milljóna veltu og stóð í 34 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Gengi Regins hefur aldrei verið hærra frá skráningu árið 2012 en fasteignafélagið hefur hækkað um 46% á einu ári.
Mesta veltan var með hlutabréf Marels eða um 834 milljónir króna. Gengi félagsins hækkaði um 0,8% og stendur nú í 784 krónum á hlut sem er um 10% lægra en í byrjun árs.
Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði um hálft prósent í 389 milljóna veltu í dag og endaði daginn í 2,09 krónum. Gengið flugfélagsins sveiflaðist nokkuð í dag, fór upp í 2,12 krónur við opnun Kauphallarinnar og lægst fór það í 2,03 krónur á hlut. Á First North-markaðnum lækkaði flugfélagið Play um 0,9% í 31 milljón króna viðskiptum.
Velta á skuldabréfamarkaðnum var talsvert minni en hefur verið undanfarnar vikur eða um 1,2 milljarðar króna.