Gylfi Magnús­son stjórnar­for­maður Orku­veitunnar segir samtöl í gangi varðandi sölu á hlutum í dóttur­félagi OR, Car­b­fix hf.

„Það er ekki hægt að segja neitt á þessu stigi. Þetta er allt bara í vinnslu og það sama á við um Coda Terminal. Þetta er allt bara í gangi,“ segir Gylfi í sam­tali við Við­skipta­blaðið.

Árið 2022 var Car­b­fix hf. stofnað þar sem ljóst var að næsti kafli í þróun félagsins og ein­stakra verk­efna kallaði á tuga milljarða króna fjár­festingu.

Í um­sögn rýni­hóps borgarráðs um stofnun félagsins sagði að ekki væri rétt­lætan­legt að slíkar fjár­hæðir rynnu úr borgar­sjóði eða rekstri OR.

Því þyrfti að sækja aukið fé með sölu hluta­fjár og/eða lánum. Það hefur þó ekki gerst enn.

Í desember 2024 samþykkti stjórn OR að hækka lána­línu Car­b­fix í 12 milljarða króna, um 80 milljónir evra, til árs­loka 2026. Gert er ráð fyrir að lána­línan verði endur­greidd árið 2027.

Spurður um hvort hann telji að það muni takast að selja Car­b­fix hf. fyrir árs­lok 2026 segir Gylfi svo vera.

„Það er reiknað með því að það gangi eftir,“ segir Gylfi.

Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í gær lauk Car­b­fix hf. rekstrarárinu 2024 með skuldir upp á 43,9 milljónir evra, um 6,3 milljarða króna á gengi dagsins.

Um er að ræða 79% aukningu á milli ára en félagið skuldaði 24,5 milljónir evra í árs­lok 2023. Langtíma­skuldir til Orku­veitunnar námu 30,6 milljónum evra í árs­lok 2024, saman­borið við 14,6 milljóna skammtíma­skuld við OR árið áður.

Orku­veitan hefur því lagt félaginu veru­legt fjár­magn til rekstrar og breytt skammtíma­skuldinni í langtímalán.

Car­b­fix tapaði 8,1 milljón evra sem sam­svarar tæpum 1,2 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Upp­safnað tap félagsins síðustu tvö ár er 11,3 milljónir evra.

Heildar­eignir félagsins voru bók­færðar á 40,5 milljónir evra í árs­lok 2024 sem er aukning úr 29,2 milljónum evra árið 2023.

Mestur hluti eigna Car­b­fix er bundinn í varan­lega rekstrar­fjár­muni, sem námu 26,2 milljónum evra í lok árs, auk óefnis­legra eigna að fjár­hæð 3,6 milljónir evra.

Eiginfjárhlutfallið í mínus 8,4%

Í árs­lok 2023 var eigið fé félagsins jákvætt upp á 4,7 milljónir evra en í lok árs í fyrra var það neikvætt um 3,4 milljónir evra.

Eigin­fjár­hlut­fall Car­b­fix var -8,4% í lok árs.

Neikvætt eigið fé gefur til kynna að skuldir félagsins séu meiri en eignir þess, sem getur tak­markað mögu­leika á lántöku á al­mennum markaði og kallar því á áfram­haldandi stuðning frá Orku­veitunni.

Heildar­tekjur ársins námu 10 milljónum evra, saman­borið við 5,5 milljónir evra árið 2023.

Tekjurnar skiptust í ráðgjafarþjónustu, skattaívilnanir o.fl., sem námu rúmum 2 milljónum evra, og tekjur vegna verk­efnaþróunar sem námu 7,7 milljónum evra.

Verk­efni Car­b­fix eru fjár­mögnuð þannig að allur kostnaður er endur­greiddur af við­skipta­vinum eða styrktaraðilum og tekjur og út­gjöld eru því bókuð á sama tíma.

Kostnaður við verk­efnaþróunina er því bók­færður á sömu upp­hæð, 7,7 milljónir evra, og áhrif teknanna á af­komu Car­b­fix eru því í reynd engin.

Rekstrar­gjöld jukust úr 7,8 milljónum evra í 16,1 milljón evra, einkum vegna hærri kostnaðar við verk­efnaþróun.

EBITDA var neikvæð um 6,1 milljón evra og EBIT var neikvætt um 7,2 milljónir evra í lok árs 2024.

Fjár­magns­gjöld námu 2,7 milljónum evra og gengi­stap 1,1 milljón evra.

Tap fyrir skatta var 10,8 milljónir evra og hreint tap ársins var 8,1 milljón evra sem er rúm­lega þreföldun frá 2,2 milljónum evra í fyrra.

Í ársreikningi OR er bent á að fjárfestingar og lánveitingar til Carbfix séu áhættusamar þar sem félagið sé á vaxtarog þróunarstigi án sjálf­bærs tekjuflæðis.

Tekið er fram að stefnt sé að því að fá meðfjárfesta að verkefnum til að minnka áhættu, en að árangur ráðist af því hvort Carbfix nái að ljúka samningum og framkvæmdir gangi samkvæmt áætlun.