Kvika banki hf. hefur birt árshlutauppgjör fyrir annan ársfjórðung og fyrstu sex mánuði ársins 2025, þar sem kemur fram að bankinn hafi skilað sínum besta rekstrarhagnaði frá upphafi.
Á fyrstu sex mánuðum ársins nam hagnaður af áframhaldandi starfsemi samstæðunnar eftir skatta 1.625 milljónum króna, samanborið við 1.764 m.kr. á sama tímabili í fyrra, sem er lækkun um 7,9% að teknu tilliti til einskiptisliða á fyrsta ársfjórðungi.
Hagnaður fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi var 2.726 milljónir, eða 13,4% meiri en á sama tíma 2024.
Þegar leiðrétt er fyrir einskiptisliðum nemur hækkunin 50,3% og hagnaður fyrir skatta fer þá í 3.615 milljónir.
Hreinar vaxtatekjur jukust um 23,7% milli ára, í 5.879 milljónir og vaxtamunur fór úr 3,8% í 4,1%.
Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 15,8% í 3.455 milljónir, en aðrar rekstrartekjur drógust saman um fjórðung, í 243 m.kr. Rekstrarkostnaður jókst um 12,4% í 6.071 m.kr.
Arðsemi efnislegs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi var 13,3% en 17,7% þegar leiðrétt er fyrir einskiptisliðum. Hagnaður á hlut var 0,77 kr. samanborið við 0,49 kr. í fyrra.
Metárangur á öðrum fjórðungi
Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaður af áframhaldandi starfsemi eftir skatta 1.439 milljónum króna sem er 85,2% aukning frá sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir skatta hækkaði um 70,3% í 2.025 milljónir.
Hreinar vaxtatekjur voru 2.962 milljónir, eða 22% meiri en í fyrra, og vaxtamunur mældist 4,0%. Þóknanatekjur jukust um 43,2% í 1.935 milljónir, en aðrar rekstrartekjur voru svipaðar og árið áður. Rekstrarkostnaður hækkaði hóflega um 9,1% í 2.981 milljónir.
Í efnahagsreikningi kom fram að innlán frá viðskiptavinum jukust um 10,3% frá áramótum, í 180 milljarða króna, og útlán uxu um 14,7% í 172 milljarða.
Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 23,3% og lausafjárþekjuhlutfallið fór í 910%, sem er stórt stökk frá 360% í lok árs 2024.
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir rekstrarhagnað annars ársfjórðungs þann mesta í sögu bankans, þar sem hagnaður fyrir skatta fór í fyrsta sinn yfir tvo milljarða. Hann bendir á að afkoman endurspegli styrk kjarnastarfseminnar og fyrstu skref í nýrri stefnu sem miðar að auknum útlánum eftir sölu á TM.
„Kvika lýkur viðburðaríkum öðrum ársfjórðungi í afar sterkri stöðu. Rekstrarhagnaður tímabilsins er sá mesti sem bankinn hefur skilað til þessa, þar sem hagnaður fyrir skatta af bankastarfsemi fór í fyrsta sinn yfir tvo milljarða króna. Þessi árangur endurspeglar styrk kjarnastarfsemi okkar og fyrstu skrefin í þeirri stefnu að einblína á bankastarfsemi og auka útlán í kjölfar sölu á TM,“ segir Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku í uppgjörinu.