Kvika banki hf. hefur birt árs­hluta­upp­gjör fyrir annan árs­fjórðung og fyrstu sex mánuði ársins 2025, þar sem kemur fram að bankinn hafi skilað sínum besta rekstrar­hagnaði frá upp­hafi.

Á fyrstu sex mánuðum ársins nam hagnaður af áfram­haldandi starf­semi sam­stæðunnar eftir skatta 1.625 milljónum króna, saman­borið við 1.764 m.kr. á sama tíma­bili í fyrra, sem er lækkun um 7,9% að teknu til­liti til ein­skiptisliða á fyrsta árs­fjórðungi.

Hagnaður fyrir skatta af áfram­haldandi starf­semi var 2.726 milljónir, eða 13,4% meiri en á sama tíma 2024.

Þegar leiðrétt er fyrir ein­skiptisliðum nemur hækkunin 50,3% og hagnaður fyrir skatta fer þá í 3.615 milljónir.

Hreinar vaxta­tekjur jukust um 23,7% milli ára, í 5.879 milljónir og vaxta­munur fór úr 3,8% í 4,1%.

Hreinar þóknana­tekjur hækkuðu um 15,8% í 3.455 milljónir, en aðrar rekstrar­tekjur drógust saman um fjórðung, í 243 m.kr. Rekstrar­kostnaður jókst um 12,4% í 6.071 m.kr.

Arð­semi efnis­legs eigin fjár (RoTE) fyrir skatta af áfram­haldandi starf­semi var 13,3% en 17,7% þegar leiðrétt er fyrir ein­skiptisliðum. Hagnaður á hlut var 0,77 kr. saman­borið við 0,49 kr. í fyrra.

Metárangur á öðrum fjórðungi

Á öðrum árs­fjórðungi nam hagnaður af áfram­haldandi starf­semi eftir skatta 1.439 milljónum króna sem er 85,2% aukning frá sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrir skatta hækkaði um 70,3% í 2.025 milljónir.

Hreinar vaxta­tekjur voru 2.962 milljónir, eða 22% meiri en í fyrra, og vaxta­munur mældist 4,0%. Þóknana­tekjur jukust um 43,2% í 1.935 milljónir, en aðrar rekstrar­tekjur voru svipaðar og árið áður. Rekstrar­kostnaður hækkaði hóf­lega um 9,1% í 2.981 milljónir.

Í efna­hags­reikningi kom fram að inn­lán frá við­skipta­vinum jukust um 10,3% frá áramótum, í 180 milljarða króna, og útlán uxu um 14,7% í 172 milljarða.

Eigin­fjár­hlut­fall sam­stæðunnar var 23,3% og lausa­fjárþekju­hlut­fallið fór í 910%, sem er stórt stökk frá 360% í lok árs 2024.

Ár­mann Þor­valds­son, for­stjóri Kviku, segir rekstrar­hagnað annars árs­fjórðungs þann mesta í sögu bankans, þar sem hagnaður fyrir skatta fór í fyrsta sinn yfir tvo milljarða. Hann bendir á að af­koman endur­spegli styrk kjarna­starf­seminnar og fyrstu skref í nýrri stefnu sem miðar að auknum útlánum eftir sölu á TM.

„Kvika lýkur viðburðaríkum öðrum árs­fjórðungi í afar sterkri stöðu. Rekstrar­hagnaður tíma­bilsins er sá mesti sem bankinn hefur skilað til þessa, þar sem hagnaður fyrir skatta af banka­starf­semi fór í fyrsta sinn yfir tvo milljarða króna. Þessi árangur endur­speglar styrk kjarna­starf­semi okkar og fyrstu skrefin í þeirri stefnu að ein­blína á banka­starf­semi og auka útlán í kjölfar sölu á TM,“ segir Ár­mann Þor­valds­son for­stjóri Kviku í upp­gjörinu.