Fyrirtækin RetinaRisk og Lucinity hafa hlotið verðlaun World Summit Awards (WSA), stofnunar sem tengist Sameinuðu þjóðunum, fyrir tæknilausnir við samfélagslegum áskorunum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Risk hlaut verðlaun í flokknum heilsa og velferð, en fyrirtækið hefur þróað áhættureikninn RetinaRisk sem metur áhættu fólks, sem er með sykursýki, á að fá sjónskerðandi augnsjúkdóma. Fyrirtækið stofnuðu Einar Stefánsson og Thor Aspelund, prófessorar við Háskóla Íslands, ásamt Örnu Guðmundsdóttur innkirtlalækni og er áhættureiknirinn sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum.
Fjallað var um Risk nú á dögunum í þriðja tölublaði Viðskiptablaðsins . Fyrirtækið kynnti á dögunum samstarf við Bandarísku sykursýkisamtökin (ADA) um að gera reikninn, sem er sá eini sinnar tegundar í heiminum, aðgengilegan bandarískum almenningi.
Smáforritið RetinaRisk fór í loftið árið 2019 og hafa nú nærri milljón manns í 175 löndum sótt appið. Risk hefur einnig þróað svokallaða API-tengingu sem tengist upplýsingakerfum spítala og hjálpar þeim að greina áhættuhópa og bæta skilvirkni skimunar. Landspítalinn er nú að innleiða API-lausnina sem mun m.a. gera honum kleift að meta hvaða einstaklinga er brýnast að kalla inn í augnskimun.
„Sykursýki er ein helsta orsök blindu í heiminum en hægt er að koma í veg fyrir sjónskerðinguna í yfir 90% tilvika með snemmgreiningu og viðeigandi meðferð. Okkar markmið er að allir einstaklingar með sykursýki geti fylgst með sinni áhættu og komið í veg fyrir fylgikvilla," sagði Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Risk, í samtali við Viðskiptablaðið.
Einstakur árangur
Fyrirtækin tvö voru valin úr hópi 8 þúsund nýsköpunarverkefna sem tilnefnd voru til verðlaunanna, en aldrei áður hafa tvö íslensk fyrirtæki hlotið verðlaun WSA á sama árinu. Lucinity er nýsköpunarfyrirtæki sem framleiðir gervigreindarhugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að berjast gegn peningaþvætti. Viðskiptablaðið fjallaði fyrr í dag um verðlaunin sem fyrirtækið hlaut fyrir bestu tæknilausnina á sviði viðskipta og verslunar.
Fulltrúum fyrirtækjanna tveggja býðst að kynna þau á alþjóðaþingi World Summit Awards sem fram fer á netinu dagana 22.-24. mars.