Norski laxeldisrisinn Salmar, aðaleigandi Arnarlax, hefur gert 15,1 milljarðs norska króna, jafnvirði um 210 milljarða íslenskra króna, í annað norskt laxeldisfélag, NTS, samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Gangi kaupin eftir verður Salmar því aðaleigandi tveggja stærstu laxeldisfyrirtækja landsins.

NTS er meirihlutaeigandi í laxeldisfyrirtækinu Norway Royal Salmon sem á svo meirihlutann í Arctic Fish, næststærsta laxeldisfyrirtæki landsins á eftir Arnarlaxi.

Salmar og Mowi, stærsti laxeldisframleiðandi heims, hafa að undanförnu bæði verið á eftir NTS. Salmar bauð 120 krónur á hlut í NTS sem toppaði boð Mowi sem hljóðaði upp á 110 krónur á hlut en Mowi tilkynnti í kjölfarið að það væri hætt við yfirtöku á NTS.

Salmar segir að eigendur meirihluta í NTS hafi þegar skuldbundið sig til að samþykkja tilboðið sem muni hafa í för með sér töluverð samlegðaráhrif í för með sér fyrir fyrirtækin. 20% af kaupverði Salmar verður greitt með reiðufé og 80% með hlutabréfum í Salmar ef af kaupunum verður.

Hlutabréfaverð í Arnarlax, sem skráð er í Noregi undir nafninu Icelandic Salmon hefur hækkað um tæp 8% í byrjun vikunnar og er félagið metið á um 65 milljarða íslenskra króna. Arctic Fish hækkaði hins vegar um 4,9% í gær en Morgunblaðið fjallaði í gær um laxadauða Arctic Fish það sem af er ári . Markaðsvirði Arctic Fish er um 37 milljarðar íslenskra króna.

Arnalax og Arctic Fish eru bæði skráð í kauphöll í Noregi, sem og Ice Fish Farm. Samanlagt markaðsvirði íslensku laxeldisfyrirtækjanna þriggja í norsku kauphöllinni er um 130 milljarða íslenskra króna.