Samkeppniseftirlitið hefur hafið formlega rannsókn á því hvort Storytel Iceland ehf. og Storyside AB hafi brotið gegn banni við misnotkun markaðsráðandi stöðu, samkvæmt samkeppnislögum og EES-samningnum.
Rannsóknin á rætur sínar að rekja til kvörtunar frá Rithöfundasambandi Íslands (RSÍ).
Í kvörtuninni er því haldið fram að Storytel gæti veitt hljóðbókum frá eigin útgáfu, Storyside, eða öðrum tengdum útgefendum sérstakan forgang í framsetningu og markaðssetningu á streymisveitu sinni.
Slíkt gæti leitt til þess að verk annarra útgefenda og höfunda fengju minni hlustun, með þeim afleiðingum að höfundar væru hvattir til að gera samninga beint við Storyside og að tekjur héldust innan samstæðunnar.
Samkeppniseftirlitið mun í fyrsta lagi meta hvort Storytel teljist hafa markaðsráðandi stöðu á íslenskum markaði fyrir hljóð- og rafbækur.
Í öðru lagi verður rannsakað hvort viðskiptaskilmálar félagsins gagnvart útgefendum og höfundum séu ósanngjarnir og hvort markaðssetning bókatitla á vettvangi fyrirtækisins feli í sér samkeppnishamlandi háttsemi, þar á meðal mögulega ólögmæta sjálfsforgangsröðun (e. self-preferencing).
Alþjóðlegt samstarf
Storytel Iceland og Storyside eru bæði í eigu sænska fyrirtækisins Storytel AB, sem skráð er í Svíþjóð.
Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir aðstoð sænska samkeppniseftirlitsins á grundvelli samstarfssamnings milli norrænna eftirlitsstofnana.
Málið hefur jafnframt verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), þar sem grunur leikur á að háttsemin kunni að hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkja.