Sam­keppnis­eftir­litið hefur hafið form­lega rannsókn á því hvort Stor­ytel Iceland ehf. og Stor­ysi­de AB hafi brotið gegn banni við mis­notkun markaðs­ráðandi stöðu, sam­kvæmt sam­keppnislögum og EES-samningnum.

Rannsóknin á rætur sínar að rekja til kvörtunar frá Rit­höfunda­sam­bandi Ís­lands (RSÍ).

Í kvörtuninni er því haldið fram að Stor­ytel gæti veitt hljóðbókum frá eigin út­gáfu, Stor­ysi­de, eða öðrum tengdum út­gef­endum sér­stakan for­gang í fram­setningu og markaðs­setningu á streymis­veitu sinni.

Slíkt gæti leitt til þess að verk annarra út­gef­enda og höfunda fengju minni hlustun, með þeim af­leiðingum að höfundar væru hvattir til að gera samninga beint við Stor­ysi­de og að tekjur héldust innan sam­stæðunnar.

Sam­keppnis­eftir­litið mun í fyrsta lagi meta hvort Stor­ytel teljist hafa markaðs­ráðandi stöðu á ís­lenskum markaði fyrir hljóð- og raf­bækur.

Í öðru lagi verður rann­sakað hvort við­skipta­skilmálar félagsins gagn­vart út­gef­endum og höfundum séu ósann­gjarnir og hvort markaðs­setning bóka­titla á vett­vangi fyrir­tækisins feli í sér sam­keppnis­hamlandi hátt­semi, þar á meðal mögu­lega ólög­mæta sjálfs­for­gangs­röðun (e. self-preferencing).

Alþjóð­legt sam­starf

Stor­ytel Iceland og Stor­ysi­de eru bæði í eigu sænska fyrir­tækisins Stor­ytel AB, sem skráð er í Svíþjóð.

Sam­keppnis­eftir­litið hefur óskað eftir að­stoð sænska sam­keppnis­eftir­litsins á grund­velli sam­starfs­samnings milli norrænna eftir­lits­stofnana.

Málið hefur jafn­framt verið til­kynnt til Eftir­lits­stofnunar EFTA (ESA), þar sem grunur leikur á að hátt­semin kunni að hafa áhrif á við­skipti milli EES-ríkja.