Úr árs­hluta­upp­gjöri Kviku banka fyrir fyrri árs­helming 2025 kemur fram að sam­runa­viðræður við Arion banka eru komnar á form­legt stig og unnið er að ítar­legri áreiðan­leikakönnun.

Sam­kvæmt yfir­lýsingu Ár­manns Þor­valds­sonar for­stjóra Kviku bárust bankanum, líkt og kunnugt er, tvö til­boð um sam­runa­viðræður í lok maí, frá Arion banka og Ís­lands­banka.

Stjórn Kviku taldi hvorugt upp­haf­lega til­boðsins endur­spegla virði bankans að fullu og hóf ferli til að kalla fram bestu mögu­legu til­boð, sem jafn­framt voru borin saman við sjálf­stæðar áætlanir bankans. Niður­staðan varð sú að til­boð Arion banka teldist hagstæðast fyrir hlut­hafa Kviku að mati stjórnar.

Ár­mann segir að sam­einaður banki myndi hafa burði til að skapa aukið virði fyrir alla hags­muna­aðila. Hann áréttar þó að ferlið sé bæði flókið og tíma­frekt:

„Gert er ráð fyrir að sam­runa­ferlið taki að minnsta kosti 9–12 mánuði. Nú er unnið hörðum höndum að áreiðan­leikakönnun og undir­búningi for­viðræðna við Sam­keppnis­eftir­litið með það að mark­miði að stað­festa raun­hæfi verk­efnisins og greina hug­san­legar hindranir snemma í ferlinu. Á meðan ferlinu vindur áfram höldum við ótrauð áfram að vinna að dag­legum rekstri og byggjum á þeim árangri sem þegar hefur náðst,“ segir Ár­mann í til­kynningunni.

Þar til niður­staða liggur fyrir mun Kvika halda áfram dag­legum rekstri og byggja á þeim rekstrarárangri sem þegar hefur náðst á árinu, þar á meðal metárangri á öðrum árs­fjórðungi.