Mark Zuckerberg, stofnandi Meta, hefur samþykkt að greiða nokkra milljarða dala í sátt í tengslum við deilumál við hluthafa. Á vef BBC segir að málið snúist um það hvernig framkvæmdastjórar og stjórnarmenn brugðust við brotum Facebook á friðhelgi einkalífs.

Hluthafar kröfðust átta milljarða dala í skaðabætur en það er óljóst hversu há upphæðin sem Meta samþykkti að greiða var.

Lögmaður hluthafanna greindi frá samkomulaginu í gær rétt áður en réttarhöld áttu að hefjast á öðrum degi fyrir dómstóli í Delaware. Meta hefur ekki viljað tjá sig um málið en hluthafarnir höfðu beðið dómarann um að fyrirskipa 11 sakborningum í málinu en endurgreiða Meta meira en átta milljarða dala í sektir og málskostnað.

Hluthafarnir höfðu meðal annars fullyrt að aðgerðir Zuckerbergs hefðu leitt til Cambridge Analytica-hneykslismálsins þar sem gögn milljóna Facebook-notenda voru lekin og notuð af ráðgjafafyrirtækinu.

Sögðu óvart að indverskur ráðherra væri látinn

Meta hefur einnig beðist afsökunar eftir að færsla frá indverskum aðalráðherra var ranglega þýdd á samfélagsmiðlum fyrirtækisins þar sem gefið var í skyn að hann væri látinn. Press Trust of India greindi fyrst frá því máli.

Á þriðjudaginn birti Siddaramaiah, aðalráðherra Karnataka, samúðarkveðju á Facebook og Instagram þar sem hann syrgði andlát frægrar leikkonu.

Færslan var hins vegar ranglega þýdd yfir á ensku og var sagt að það væri í raun ráðherrann sem hefði látist. Í kjölfar villunnar gagnrýndi ráðherrann sjálfvirka þýðingarkerfi Meta og sakaði það um að brengla staðreyndir og villa notendur.

Hann varaði við að slíkar rangfærslur væru sérstaklega hættulegar í samhengi opinberra samskipta og hefur fyrirtækið verið beðið um að stöðva tímabundið sjálfvirka þýðingu á Kannada-tungumálinu, sem talað er í Karnataka, þar til búið er að lagfæra kerfið.