Framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins BlueWest, áður Reykjavík Helicopters, var á dögunum dæmdur til refsingar fyrir að hafa skipulagt og selt útsýnisflug með tveimur þyrlum um friðlandið á Hornströndum. Jafnframt voru tveir þyrluflugmenn á vegum félagsins dæmdir til refsingar fyrir að hafa flogið þyrlunum og lent þeim í Fljótavík án leyfis Umhverfisstofnunar.
Upphaflega voru þeir sýknaðir af Héraðsdómi Vestfjarða 11. maí 2021. Ríkissaksóknari skaut málinu hins vegar til Landsréttar 2. júní sama ár og var dæmt í málinu 18. febrúar síðastliðinn.
Í dómi Landsréttar var rakið að Hornstrandir voru friðlýstar árið 1975 og er ráðherra heimilt að fela Umhverfisstofnun að setja nánari reglur um umferðarrétt manna í stjórnunar- og verndaráætlun friðlandsins, sem var gert með auglýsingu nr. 161/2019. Í 9. grein reglna í auglýsingunni er kveðið á um það með afdráttarlausum hætti að óheimilt er að lenda þyrlum innan friðlandsins nema með leyfi Umhverfisstofnunar.
Fallist var á að fyrrgreind regla væri gild refsiheimild samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Aðilarnir voru sakfelldir og þeim gert að greiða sektir í ríkissjóð en að þeir skyldu ella sæta fangelsi í sex daga. Í dómnum var tekið tillit til þess að um tvær stakar lendingar var að ræða og brotin því ekki stórfelld. Jafnframt hafi ákærðu ekki áður sætt refsingu.
Fyrirtækinu var gert að greiða 150 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa ávinning af brotinu, en lending þyrlnanna var liður í ferð með erlenda farþega. Ákærðu, framkvæmdastjóri félagsins og þyrluflugmennirnir, þurfa hver um sig að greiða 75 þúsund krónur í sekt. Auk þess er ákærðu gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, en launin nema tæpum tveim milljónum króna.