Sigurlína Ingvarsdóttir hefur tekið við stjórnarformennsku hjá leikjafyrirtækin Solid Clouds . Meðstjórnendur Sigurlínu eru Ólafur Andri Ragnarsson varaformaður, Eggert Árni Gíslason, Guðmundur Ingi Jónsson og Svanhvít Friðriksdóttir. Varastjórn skipa Þorlákur Traustason, Heimir Þorsteinsson og Ársæll Valfells.
Solid Clouds var stofnað af Stefáni Gunnarssyni, Stefáni Björnssyni og Sigurði Arnljótssyni sem var fyrsti forstjóri CCP.
Solid Clouds vinnur að því að þróa tæknigrunn þar sem hægt er að nota til framleiða fjölspilunartölvuleiki með skilvirkum hætti. Fyrsta afurð grunnsins var Starborne Sovereign Space sem gefinn var út í fyrra en þann leik hafa 400 þúsund spilarar frá um 150 löndum spilað samkvæm tilkynningu frá félaginu. Núna er unnið að þróun fleiri tölvuleikja en 16 manns starfa hjá félaginu.
Sigurlína Ingvarsdóttir er reynslubolti í tölvuleikjaheiminum og hefur nýverið snúið heim til Íslands eftir tíu ára búsetu og störf í Malmö, Stokkhólmi, Vancouver og Kaliforníu. Hún hefur meðal annars starfað hjá fyrirtækjum á borð við Ubisoft, EA DICE, EA Sports og Bonfire Studios.
Sjá einnig: Fréttir af leiknum hreyfðu hlutabréfaverð
Sigurlína stýrði þróun Star Wars Battlefront sem er mest seldi Star Wars tölvuleikur allra tíma og tók svo við að stýra framtíðarstefnu EA Sports FIFA, fótboltatölvuleiksins sem er eitt stærsta tölvuleikjavörumerki sögunnar. Þar stýrði hún einnig gerð FIFA Volta, nýrrar viðbótar við FIFA sem kom út í fyrsta skipti í FIFA 20 útgáfunni.
Áður hafði Sigurlína starfað sem verkefnastjóri í lyfjaþróun hjá Actavis, í viðskiptaþróun fyrir Haga og sem framleiðandi hjá CCP. Hún kom að og var einn af fyrstu stjórnarformönnum Samtaka íslenskra tölvuleikjafyrirtækja, IGI, og hefur látið mikið að sér kveða í umræðunni um að tölvuleikjafyrirtæki og önnur skapandi fyrirtæki þurfi að vinna markvisst að því laða að sér fjölbreyttan hóp starfsmanna.
Sigurlína situr fyrir í stjórnum fyrirtækjanna Aldin Dynamics, Carbon Recycling International og vaxtarsjóðsins Eyris Vaxtar.
“Ég er mjög ánægð með að vera sest í stjórn Solid Clouds. Fyrirtækið hefur byggt upp spennandi hugmyndaheim og tæknilegan grunn til frekari tölvuleikjagerðar og hefur metnaðarfullar áætlanir til að sækja fram í þessum geira. Tölvuleikir eru hraðvaxandi markaður á heimsvísu og ég tel að reynsla mín og tengslanet muni nýtast fyrirtækinu vel til að sækja fram í leikjaþróun sinni. Ég sé mikil tækifæri í því að byggja upp sterkan tölvuleikjaiðnað hér á landi og vil leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða,” er haft eftir Sigurlínu í tilkynningu.