Sterkt raungengi og hækkun skatta og gjalda mun gera róðurinn þungan hjá útflutningsfyrirtækjum á komandi misserum. Hagfræðin og sagan kennir okkur að aðlögun gengis er líkleg og þá mun ástandið fljótt breytast. Sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum þar sem vaxtartækifærin eru mest, eins og í fiskeldi.

Þetta kemur fram í viðauka nýs verðmats Jakobsson Capital á laxeldisfyrirtækinu Kaldvík, þar sem sjónum er beint að háu raungengi krónunnar og samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækjanna hér á landi.

Sjónum er einnig beint að boðuðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar á stærstu útflutningsgreinar landsins á borð við sjávarútveginn og ferðaþjónustu. Fyrsta skrefið í þá átt hefur þegar verið stigið er frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um stórfellda hækkun veiðigjalda var samþykkt fyrir þinglok.

Bendir Jakobsson Capital á að aukning í skattlagningu á helstu útflutningsgreinarnar skili ríkissjóði líklega aukningu í skatttekjum. Ólíklegt sé þó að tekjur verði í samræmi við væntingar því líklega dragi úr umsvifum og samkeppnishæfni útflutningsgreina á sama tíma.

„Íslensk útflutningsfyrirtæki eru í harðri samkeppni og því hafa litlar breytingar á rekstrarumhverfi mjög mikil áhrif á afkomu og samkeppnishæfni. Þetta eru þeir atvinnuvegir sem eru hvað næmastir fyrir breytingum á ytri aðstæðum. Það ætti flestum að vera ljóst jafnvel þótt þekking á einstökum atvinnugreinum eða hagfræði sé takmörkuð. Skattlagningin gæti jafnvel snúist upp í andhverfu sína og skatttekjur ríkisins dregist saman vegna samdráttar sem skattahækkanir valda. Ef ríkissjóður væri fyrirtæki á hlutabréfamarkaði væri rekstraráætlun ríkissjóðs tæplega trúverðug þar sem rekstraráætlun tæki ekki tillit til neikvæðra áhrifa.“

Umræðan í þjóðfélaginu virðist aftur á móti lítið horfa til útflutningsatvinnuveganna. „Það er eins og margir telji að hægt sé að lifa á norðurljósunum einum saman. Gjaldeyririnn býr sig víst ekki til sjálfur. Ljósi punkturinn fyrir útflutningsatvinnuvegina þótt langsóttur sé er að skattahækkanir á útflutningsgreinar eru líklegar til að grafa undan raungengi krónunnar. Skattahækkanir á útflutningsatvinnuvegina gætu dregið úr kaupmætti og velmegun þegar öllu er botninn hvolft. Þvert á væntingar og tilgang,“ segir að lokum í viðaukanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.