Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur vakið hörð viðbrögð á meðal sérfræðinga á fjármálamörkuðum og hagfræðinga með því að víkja forstjóra vinnumálastofnunar Bandaríkjanna (Bureau of Labor Statistics, BLS) úr starfi eftir að vinnumarkaðsskýrslan fyrir júlí sýndi veikari þróun en búist hafði verið við.
Í kjölfarið hefur hann tilnefnt EJ Antoni, hagfræðing hjá hugveitunni Heritage Foundation og dyggan stuðningsmann minn, sem eftirmann.
Samkvæmt umfjöllun Financial Times óttast margir að skipunin marki skref í þá átt að pólitískt inngrip hafi áhrif á helstu hagvísa heims.
BLS gefur út mánaðarlegar vinnumarkaðsskýrslur og verðbólgumælingar (CPI) sem skipta sköpum fyrir ákvarðanir seðlabanka, lífeyrissjóða og fjárfesta um allan heim.
Stan Veuger, sérfræðingur hjá American Enterprise Institute, segir Antoni hið gagnstæða við það sem menn hefðu helst viljað sjá, sem óháðan sérfræðing með faglega reynslu sem gæti notið trausts allra.
„Jafnvel þeir sem hafa samúð með stefnu hans telja hann ekki hæfan,“ segir Veuger.
Efasemdir aukast enn vegna þess að Antoni hefur áður kallað gögn BLS kjaftæði (e.bullshit) og lagt til að það eigi að hætta alfarið að gefa út vinnumarkaðsskýrslur sem greina frá til að mynda atvinnuleysistölum í Bandaríkjunum. Þegar Fox News rifjaði upp þessi ummæli féll gengi dollarans tímabundið, samkvæmt FT.
Philippa Dunne, hagfræðingur hjá TLR Analytics, varar við því að ef alþjóðasamfélagið treysti ekki lengur bandarískum hagtölum muni það hafa alvarlegar afleiðingar:
„Ef þeir treysta okkur ekki, þá munu þeir ekki lána okkur fé.“
Aðrir sérfræðingar telja líklegt að markaður skapist fyrir hagtölur frá einkaaðilum, þar sem notendur velja sér gagnasöfn eftir eigin afstöðu, með tilheyrandi hættu á brotakenndri mynd af hagkerfinu.
Vandinn liggur einnig í gæðum gagna
Í leiðara The Wall Street Journal í morgun er síðan bent á að þó að pólitísk nálgun Antons sé umdeild þá eigi rót vandans sér einnig stað í hnignandi gæðum gagna sem stofnunin vinnur með.
Svarhlutföll í helstu vinnumarkaðskönnunum hafa hrunið á síðustu tíu árum. Í fyrirtækjakönnun BLS hefur svarhlutfallið farið úr 61% í 43%. Í könnum meðal bandarískra heimila hefur hlutfallið farið úr 88% í 68%.
Þetta þýðir að í auknum mæli þarf að reiða sig á líkön og áætlanir í stað raunverulegra svara, sem eykur sveiflur milli mánaða og leiðir til stærri endurskoðana síðar.
Fjárskortur hefur jafnframt knúið BLS til að hætta útreikningi og birtingu um 350 undirvísitalna í framleiðendaverðvísitölu, sem áður veittu ítarlega innsýn í verðþróun innan einstakra atvinnugreina.
Í leiðara WSJ segir að Antoni þurfi að leggja fram raunhæfar tillögur til að styrkja áreiðanleika gagna, meðal annars með því að auka gagnaskipti milli stofnana, bæta gagnasöfnun og nýta nútímatækni, enda séu sum gögn enn tekin saman með faxvélum.
Báðir viðskiptamiðlarnir sammælast þó um að traust til opinberra bandarískra hagtalna sé hornsteinn fjármálakerfisins.
Ef fjárfestar fara að draga í efa óhlutdrægni BLS gætu erlendir lánveitendur krafist hærri vaxta á bandarísk ríkisskuldabréf.
Slíkt gæti hækkað lántökukostnað ríkissjóðs og haft keðjuverkandi áhrif á vaxtastig víðar, þar á meðal á Íslandi.
Aukin notkun einkarekinna hagtalna gæti leitt til þess að ólíkir aðilar starfi eftir ósamrýmanlegum gögnum, sem myndi auka óvissu á mörkuðum.