Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, hefur vakið hörð viðbrögð á meðal sér­fræðinga á fjár­málamörkuðum og hag­fræðinga með því að víkja for­stjóra vinnumála­stofnunar Bandaríkjanna (Bureau of Labor Statistics, BLS) úr starfi eftir að vinnu­markaðs­skýrslan fyrir júlí sýndi veikari þróun en búist hafði verið við.

Í kjölfarið hefur hann til­nefnt EJ Antoni, hag­fræðing hjá hug­veitunni Herita­ge Founda­tion og dyggan stuðnings­mann minn, sem eftir­mann.

Sam­kvæmt um­fjöllun Financial Times óttast margir að skipunin marki skref í þá átt að pólitískt inn­grip hafi áhrif á helstu hag­vísa heims.

BLS gefur út mánaðar­legar vinnu­markaðs­skýrslur og verðbólgumælingar (CPI) sem skipta sköpum fyrir ákvarðanir seðla­banka, líf­eyris­sjóða og fjár­festa um allan heim.

Stan Veu­ger, sér­fræðingur hjá American Enterprise Insti­tute, segir Antoni hið gagnstæða við það sem menn hefðu helst viljað sjá, sem óháðan sér­fræðing með fag­lega reynslu sem gæti notið trausts allra.

„Jafn­vel þeir sem hafa samúð með stefnu hans telja hann ekki hæfan,“ segir Veu­ger.

Efa­semdir aukast enn vegna þess að Antoni hefur áður kallað gögn BLS kjaftæði (e.bullshit) og lagt til að það eigi að hætta al­farið að gefa út vinnu­markaðs­skýrslur sem greina frá til að mynda at­vinnu­leysistölum í Bandaríkjunum. Þegar Fox News rifjaði upp þessi um­mæli féll gengi dollarans tíma­bundið, sam­kvæmt FT.

Philippa Dunne, hag­fræðingur hjá TLR Analytics, varar við því að ef alþjóða­sam­félagið treysti ekki lengur bandarískum hagtölum muni það hafa al­var­legar af­leiðingar:

„Ef þeir treysta okkur ekki, þá munu þeir ekki lána okkur fé.“

Aðrir sér­fræðingar telja lík­legt að markaður skapist fyrir hagtölur frá einka­aðilum, þar sem not­endur velja sér gagnasöfn eftir eigin af­stöðu, með til­heyrandi hættu á brota­kenndri mynd af hag­kerfinu.

Vandinn liggur einnig í gæðum gagna

Í leiðara The Wall Street Journal í morgun er síðan bent á að þó að pólitísk nálgun Antons sé um­deild þá eigi rót vandans sér einnig stað í hnignandi gæðum gagna sem stofnunin vinnur með.

Svar­hlut­föll í helstu vinnu­markaðskönnunum hafa hrunið á síðustu tíu árum. Í fyrir­tækjakönnun BLS hefur svar­hlut­fallið farið úr 61% í 43%. Í könnum meðal bandarískra heimila hefur hlut­fallið farið úr 88% í 68%.

Þetta þýðir að í auknum mæli þarf að reiða sig á líkön og áætlanir í stað raun­veru­legra svara, sem eykur sveiflur milli mánaða og leiðir til stærri endur­skoðana síðar.

Fjár­skortur hefur jafn­framt knúið BLS til að hætta út­reikningi og birtingu um 350 undir­vísi­talna í fram­leiðenda­verðvísitölu, sem áður veittu ítar­lega innsýn í verðþróun innan ein­stakra at­vinnu­greina.

Í leiðara WSJ segir að Antoni þurfi að leggja fram raun­hæfar til­lögur til að styrkja áreiðan­leika gagna, meðal annars með því að auka gagna­skipti milli stofnana, bæta gagnasöfnun og nýta nútímatækni, enda séu sum gögn enn tekin saman með fax­vélum.

Báðir við­skipta­miðlarnir sammælast þó um að traust til opin­berra bandarískra hag­talna sé horn­steinn fjár­mála­kerfisins.

Ef fjár­festar fara að draga í efa óhlut­drægni BLS gætu er­lendir lán­veit­endur krafist hærri vaxta á bandarísk ríkis­skulda­bréf.
Slíkt gæti hækkað lántöku­kostnað ríkis­sjóðs og haft keðju­verkandi áhrif á vaxta­stig víðar, þar á meðal á Ís­landi.

Aukin notkun einka­rekinna hag­talna gæti leitt til þess að ólíkir aðilar starfi eftir ósamrýman­legum gögnum, sem myndi auka óvissu á mörkuðum.