Skráð atvinnuleysi í júlí var 3,4%, óbreytt frá síðasta mánuði. Í júlí 2024 var atvinnuleysið hins vegar 3,1%. Í mánaðarlegri skýrslu Vinnumálastofnunar er spáð því að atvinnuleysi fari hækkandi í ágúst og verði 3,5%.

Að meðaltali voru 7.448 atvinnulausir í júlí, sem samsvarar fjölgun um 50 manns milli mánaða.

Atvinnuleysi stóð í stað á flestum stöðum á landinu en hækkaði lítillega á Vesturlandi þar sem það fór úr 2,1% í 2,3%. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í júlí eða 5,6% og hélst óbreytt milli mánaða. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra eða 1,0%.

Alls komu inn 164 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun Vinnumálastofnunar í júlí.

Atvinnulausum fjölgaði lítillega í flestum atvinnugreinum í júlí nema í flokknum listir, söfn o.fl þar sem fækkaði um 18. Mest var fjölgunin í opinberri þjónustu o.fl. þar sem atvinnulausum fjölgaði um 54.