Sky Lagoon baðlónið á Kársnesinu í Kópavogi hagnaðist um 1,4 milljarða króna árið 2024 samanborið við 946 milljóna hagnað árið áður. Stjórn félagsins lagði til að allur hagnaður síðasta árs yrði greiddur út í arð til hluthafa.

Lónið opnaði í lok apríl árið 2021 og var árið 2022 því fyrsta heila rekstrarár í sögu þess. Samanlögð afkoma frá því að félagið opnaði dyr sínar fyrir gestum nemur tæplega 2,8 milljörðum króna.

Tímabundnar lokanir Bláa lónsins studdu við reksturinn

Velta Sky Lagoon jókst um 26,5% milli ára og nam tæplega 6,3 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 5,0 milljarða árið 2023 og 3,3 milljarða króna árið 2022.

„Sky Lagoon sá mikla eftirspurn frá bæði heimamönnum og alþjóðlegum gestum með heilbrigðum vexti í samræmi við fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi. Á árinu 2024 leiddu regluleg eldgos til tímabundinna lokana á sambærilegum ferðamannastöðum á Íslandi, sem hafði jákvæð áhrif á Sky Lagoon,“ segir í skýrslu stjórnar.

Rekstrargjöld baðlónsins jukust um 18,8% milli ára og námu 4,6 milljörðum króna. Laun og tengd gjöld námu 1,1 milljarði en ársverk voru 91 samanborið við 89 árið áður.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Sky Lagoon fór úr tæplega 1,1 milljarði króna í nærri 1,7 milljarða milli ára.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 3,1 milljarð króna í árslok 2024 og eigið fé var um 1,5 milljarðar.

Sky Lagoon er að 51% hluta í eigu Pursuit Iceland ehf., rekstraraðila Flyover Iceland, og 49% eigu Geothermal Lagoon ehf. Peninsula ehf. á 95% hlut í síðarnefnda félaginu, en Peninsula er að stærstum hluta í eigu Eyþórs Kristjáns Guðjónssonar og Gests Þórissonar.