Gengi krónunnar hefur styrkst veru­lega á undan­förnum mánuðum og raun­gengið er nú með því hæsta sem sést hefur á þessari öld.

Sam­kvæmt nýrri greiningu Kon­ráðs S. Guðjóns­sonar, hag­fræðings og fyrr­verandi efna­hags­ráðgjafa ríkis­stjórnarinnar, er staðan orðin svo skökk að Ís­land sé lík­lega orðið dýrasta land í Evrópu með hærra verðlag og laun en flest önnur þróuð ríki.

Kon­ráð bendir á að krónan hafi styrkst um 5% gagn­vart evru og 12% gagn­vart Bandaríkja­dal síðastliðið ár, ofan á þá hækkun sem þegar hafði átt sér stað í raun­gengi vegna þrálátrar verðbólgu og meiri launa­hækkana hér á landi en í við­skiptalöndunum.

Sam­kvæmt mati Alþjóða­gjald­eyris­sjóðsins er gengi krónunnar nú um 15% yfir því sem telst viðunandi til lengri tíma litið.

„Krónan hefur aðeins tvisvar verið álíka sterk eða sterkari á þessari öld,“ skrifar Kon­ráð og bætir við að þetta geti „ekki endað nema á einn veg.“

Hann bendir á að áhrifin af styrkingunni fari þegar að koma fram, meðal annars í versnun rekstrar­af­komu flug­félaga og ört vaxandi vöru­skipta­halla.

Samt sem áður hafi um­ræðan um stöðuna verið tak­mörkuð og viðbrögð stjórn­mála­manna og seðla­bankans lítil.

Hærri laun og verðlag en í Noregi

Í greiningunni kemur fram að verðlag á Ís­landi sé nú um 42% hærra en í Noregi, sem áður þótti með dýrustu löndum heims.

Þetta sé gríðar­leg breyting frá því fyrir rúmum ára­tug, þegar verðlag í Noregi var hærra en hér. Þá séu laun á Ís­landi, mæld í evrum, einnig hærri en í nokkru öðru Evrópuríki, að Sviss undan­skildu.

Kon­ráð segir að þróunin verði ekki skýrð með aukinni fram­leiðni og því standi ís­lensk fyrir­tæki í sí­vaxandi vanda í alþjóð­legri sam­keppni. „Það er óhagstæðara en áður fyrir fyrir­tæki í hvers kyns alþjóð­legri sam­keppni að greiða ís­lensk laun,“ skrifar hann.

Á sama tíma og styrking krónunnar dregur úr sam­keppnis­hæfni út­flutnings eykst kaup­geta al­mennings í er­lendum gjald­miðli. Það birtist m.a. í því að búist er við við­skipta­halla næstu misseri.

Kon­ráð bendir á að raun­gengið sé nú um 4% hærra en gert var ráð fyrir í ný­legri spá Seðla­bankans.

Ef sú þróun heldur áfram er lík­legt að við­skipta­hallinn verði meiri en þau 3% af lands­fram­leiðslu sem Seðla­bankinn gerir ráð fyrir í ár. Vöru­skipta­hallinn sé nú þegar orðinn mun meiri en síðustu ár og dregið hafi úr af­gangi af þjónustu­við­skiptum.

Þrátt fyrir styrka krónu hafa líf­eyris­sjóðirnir lítið fært fjár­magn úr landi að undan­förnu sem hefur dregið úr mót­vægi við styrkinguna.

„Það kann að skjóta skökku við að líf­eyris­sjóðir nýti sér ekki sterka krónu í meira mæli um þessar mundir,“ skrifar Kon­ráð.

Hann bendir á að sjóðirnir séu að vísu nálægt reglu­legu há­marki er­lendra eigna en í heild nemi er­lendar eignir aðeins um 40% af heildar­eignum.

Hann telur einnig að ný­leg gjald­eyris­greiðsla í tengslum við upp­gjör ÍL-sjóðs hafi haft áhrif en telur engu að síður óút­skýrt hvers vegna líf­eyris­sjóðir sjái ekki tækifæri til að fjár­festa er­lendis í núverandi aðstæðum.

Greiningunni lýkur með skýrri aðvörun. Þó að erfitt sé að tíma­setja næstu vendingar telur Kon­ráð lík­legt að styrking krónunnar verði ekki varan­leg. „Ef ástandið varir lengi getur það haft veru­lega skað­leg áhrif á út­flutnings­greinar og jafn­vægi þjóðar­búsins,“ skrifar hann.

Hann varar við hugsunar­hætti sem oft kemur fram í að­draganda óstöðug­leika og bólu­hegðunar: „This time is dif­ferent“.

Slíkar full­yrðingar standist sjaldnast skoðun þegar litið er til undir­liggjandi hagstærða og við­skipta­jafnaðar.