Nýjustu rannsóknir á Alzheimer-sjúkdómi gefa til kynna að bæði lyfjameðferðir og markvissar lífsstílsbreytingar geti ekki aðeins hægt á framvindu sjúkdómsins eðaa komið í veg fyrir hann heldur jafnvel snúið þróun hans við.
Vísindamenn telja að þessi árangur marki tímamót eftir áratugi þar sem litlar framfarir náðust í meðferð við sjúkdómnum, samkvæmt The Wall Street Journal.
Tvö samþykkt lyf, þróuð af lyfjafyrirtækjunum Eli Lilly og Biogen-Eisai, vinna með því að fjarlægja svokallaða amyloid-skán úr heila.
Í klínískum rannsóknum drógu lyfin úr vitrænni hnignun um 25–36% á 18 mánuðum miðað við lyfleysuhóp.
Þeir sem voru á byrjunarstigi sjúkdómsins sýndu mestan mælanlegan árangur af meðferðinni, og í Lilly-rannsókninni hélt nærri helmingur sjúklinga óskertri vitrænni getu án merkjanlegrar framvindu sjúkdómsins eftir eitt ár.
Eftirfylgnirannsóknir sýna að áhrifin aukast með tímanum, tvöföldun á þremur árum fyrir Lilly-lyfið og fjórföldun á fjórum árum fyrir Biogen-Eisai-meðferðina.
Nú er verið að kanna hvort slík meðferð geti fyrirbyggt Alzheimer hjá einkennalausum einstaklingum, líkt og statín hindrar hjarta- og æðasjúkdóma.
Rannsóknir benda einnig til þess að regluleg hreyfing, hugræn örvun, hollt mataræði og félagsleg virkni geti bætt vitræna getu hjá eldra fólki í áhættuhópi.
APOE4-genbreytan er stærsti þekkti erfðaáhættuvísir fyrir Alzheimer. Nýtt tilraunalyf sem hefur áhrif á kólesteról hefur í rannsóknum minnkað sjúkdómseinkenni hjá þeim sem bera genbreytinguna, sem gæti tengst uppsöfnun kólesteróls í heila.
Eftir áratuga stöðnun í lyfjameðferð er bjartsýni í loftinu meðal vísindamanna og sjúklinga, samkvæmt WSJ.
Ef niðurstöður núverandi rannsókna standast gæti verið að hægt sé að stöðva framvindu Alzheimer með samspili lyfjameðferðar og lífsstílsbreytinga.