Tólf mánaða verðbólga hjaðnaði úr 4,2% í 4,0% milli júní og júlí samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar í morgun. Mælingin var í takti við spár greiningardeilda bankanna. Um er að ræða síðustu verðbólgumælinguna fyrir næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 20. ágúst.
Hagfræðideild Landsbankans, sem hafði spáð 4,0% verðbólgu í júlí, segist í nýrri hagsjá ekki gera ráð fyrir að verðbólga fari niður fyrir 4,0% efri vikmörk Seðlabankans í ár. Horfur séu á að verðbólga haldist á bilinu 4,0-4,3% út árið og verði 4,1% í lok árs að mati bankans.
Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 4,0% í ágúst, 4,2% í september og 4,3% í október. Hagfræðideildin lækkaði verðbólguspána lítillega frá fyrri spá.
Hvað næstu verðbólgumælingar varða er bent á að í ágúst 2024 hafi skólagjöld verið felld niður í nokkrum háskólum og í september 2024 voru skólamáltíðir í grunnskólum gerðar gjaldfrjálsar.
„Þessi stöku lækkunaráhrif ýttu verðbólgu tímabundið niður síðasta haust, en hverfa nú úr samanburðinum og leiða því til hækkunar á mældri ársverðbólgu.“
Framlag vöruverðs minnkar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% í júlí en til samanburðar gerði hagfræðideild Landsbankans ráð fyrir 0,26% hækkun.
Í hagsjánni segir að flugfargjöld til útlanda hafi hækkað meira en gert var ráð fyrir, reiknuð húsaleiga hækkaði minna og sumarútsölur á fötum og skóm voru lakari.
Hagfræðideildin segir hjöðnun verðbólgunnar skýrast aðallega af minna framlagi vöruverðs, en framlag bæði innfluttra vara og innlendra vara til ársverðbólgu dróst saman á milli mánaða.
Á móti jókst framlag þjónustu, þá sérstaklega flugfargjalda til útlanda, sem skýrir meirihluta hækkunar á framlagi þjónustu til ársverðbólgu.