Þrátt fyrir að bandarísk hlutabréf séu á mikilli uppleið og S&P 500-vísitalan hafi slegið 15 ný met á þessu ári, fylgir þeirri þróun einnig hraður vöxtur í spákaupmennsku og áhættusækinni hegðun fjárfesta.
Greiningardeild Goldman Sachs segir í nýrri skýrslu að þessi þróun geti bæði ýtt undir skammtímaávöxtun en jafnframt aukið líkurnar á bakslagi á næstu tveimur árum en MarketWatch greinir frá.
Að sögn greiningarfyrirtækisins Bronte Capital eru svokölluð „ruslbréf“ (hlutabréf í fyrirtækjum með neikvæða afkomu eða veikleika í rekstri) farin að hækka hratt í verði.
Í nýlegri fjórðungsgreiningu þeirra segir orðrétt: „Ruslbréf hafa hækkað á ótrúlegum hraða. Umhverfið minnir á byrjun árs 2021, þegar fólk talaði í fullri alvöru um svikastarfsemi sem eignaflokk.“
Goldman Sachs fylgist með þróun svonefndrar Speculative Trading Indicator (STI) sem mælir hlutfall viðskipta með óhagnaðardrifin félög, lágverðbréf og fyrirtæki með hátt hlutfall fyrirtækjaverðmætis miðað við veltu.
Samkvæmt nýjustu tölum hefur vísitalan hækkað skarpt undanfarna mánuði, þótt hún sé enn undir hámarkinu sem sást í janúar 2000 og febrúar 2020, tveimur tímabilum sem margir líta á sem klassísk dæmi um bóluhegðun.
Auk þess hefur hlutfall valréttarsamninga með kauprétti af heildarvalréttaviðskiptum náð 61%, sem er hæsta hlutfall frá árinu 2021.
Slík viðskipti eru almennt talin merki um mikla bjartsýni eða ágengar væntingar um áframhaldandi hækkun markaða.
Annað merki um mikla áhættusækni er aukin útgáfa svonefndra SPAC-félaga (special purpose acquisition companies).
Samkvæmt Goldman Sachs námu útgáfur þeirra 9 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi 2025, sem er mesta fjármagn sem þau hafa sótt á einum ársfjórðungi síðan í byrjun árs 2022.
Þá hafa frumútboð nýrra félaga gefið umtalsverða ávöxtun á fyrstu viðskiptadögum, sem telst klassískt merki um ískyggilega eftirspurn – jafnvel þegar undirstöðuatriði rekstrar skortir.
Frá því að markaðurinn féll eftir tollatilkynningu Donalds Trump í apríl hafa fjárfestar einnig þurft að verja skortstöður sínar með því að kaupa bréf. Um er að ræða svokallaða skortstölupressu eða „short squeeze” sem er orðin algengari.
Hlutabréfasafn Goldman Sachs yfir félög með háa skortsölu hefur hækkað um meira en 60% frá byrjun apríl, sem er aðeins í þriðja sinn í 25 ár sem slík hækkun hefur átt sér stað á þremur mánuðum. Sambærileg tímabil eru uppgangurinn í kringum 2000 og GameStop-bólan 2021.
Þrátt fyrir jákvæð merki um stöðu markaðarinsme vara greiningaraðilar við því að þessi þróun geti endað með lægð.
Goldman Sachs bendir á að á síðustu 35 árum hafi svipuð tímabil með mikilli spákaupmennsku gjarnan skilað góðri ávöxtun á þriggja til tólf mánaða tímabili.
Aftur á móti hafi ávöxtun yfir 24 mánaða tímabil verið lakari í kjölfarið. „Þegar áhættusækni nær hámarki má oft sjá toppa sem marka endapunkt fremur en upphaf nýrra hækkana,“ segir í greiningunni.