Tekjur Sláturfélags Suðurlands námu rúmum 13 milljörðum króna árið 2021, sem er um 15% vöxtur frá fyrra ári þegar tekjurnar námu rúmum 11 milljörðum. Hagnaður félagsins nam 234 milljónum króna á árinu, samanborið við 259 milljóna tap árið áður. Betri markaðsaðstæður og aðgerðir sem gripið var til skýra bætta afkomu á milli ára, samkvæmt samstæðuársreikningi félagsins.
Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir var rúmur milljarður króna, en 363 milljónir árið áður. Eigið fé í lok árs 2021 nam rúmum 5,3 milljörðum. Heildareignir félagsins í lok árs voru 10,6 milljarðar króna og var eiginfjárhlutfallið 50%.
Vöru- og umbúðanotkun voru um 6,3 milljarðar, um 18% hækkun frá þeim rúmu 5,3 milljörðum sem hún var í fyrra. Launakostnaður nam 3,6 milljörðum króna á árinu og hækkaði um tæpt 1% á milli ára.
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ OMX og gerir félagið ráð fyrir því að birta afkomu fyrri árshelmings ársins 2022 þann 25. ágúst 2022, samkvæmt fjárhagsdagatali.