Kanadíska olíufyrirtækið Central European Petroleum, CEP, hefur tilkynnt um mögulegan olíufund í Eystrasalti. Samkvæmt fréttatilkynningu gefa rannsóknarboranir nærri Swinoujscie í norðvesturhluta Póllands til kynna að á svæðinu séu um 200 milljónir tunna af olíu og jarðgasi.

Að því er segir í frétt New York Times um málið yrði olíufundurinn sá stærsti í Norður-Evrópu í meira en áratug. Slíkt myndi koma Pólverjum vel en landið neytir um 740 þúsund tunna af olíu á hverjum degi.

Haft er eftir Rolf G. Skaar, forstjóra CEP, að við fulla afkastagetu væri hægt að framleiða um 40 þúsund tunnur af olíu á dag en svæðið er einungis á um 30 feta eða um 9 metra dýpi. Áður hafði fyrirtækið m.a. framkvæmt rannsóknarboranir í Þýskalandi.

Fundurinn hafi verið afrakstur um tveggja áratuga olíuleitar á svæðinu, þar sem meðal annars var stuðst við gögn frá Sovéttímanum.

Stærstu hluthafar CEP eru einkafjárfestar frá Noregi en mögulega mun fyrirtækið sækja aukið fjármagn til að fjármagna verkefnið. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar gæti numið um einum milljarði dollara.