Í byrjun desember á liðnu ári voru stafrænar covid-lausnir Landspítalans á leið í loftið eftir nokkurra mánaða þróunarferli. Óhætt er að segja að þær hafi verið tilbúnar á elleftu stundu, því um sama leyti skall ómíkrónbylgjan á. Þrátt fyrir margfaldan fjölda daglegra smita í samanburði við fyrri bylgjur gerðu hinar nýju stafrænu lausnir spítalanum kleift að viðhalda eftirliti covid-göngudeildar með flestum smituðum sjúklingum.
Viðskiptablaðið hitti covid-teymið á Heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítalans (HUT) sem hefur átt veg og vanda að þróun þessara stafrænu covid-lausna. Teymið samanstendur hvort tveggja af starfsmönnum spítalans og verktökum. Adeline Tracz, Kristján Sturlaugsson og Pétur Guðmundur Ingimarsson eru starfsmenn spítalans og þeir Erlendur Eyvindarson, Grettir Einarsson, Haraldur Orri Hauksson, Ívar Ragnarsson, Karl Thoroddsen og Kristmundur Ólafsson starfa fyrir HUT sem verktakar.
Þegar stafrænu lausnirnar fóru í loftið í desember var teymið í þeirri stöðu að þurfa að slípa þær til samhliða miklum vexti ómíkrónsmita. Líktu þau reynslunni við það að aka niður Kambana í hálku og á bremsulausum bíl. Vegna þess að kerfið hefur verið þróað innan spítalans, og með góðu samstarfi við Origo og Embætti landlæknis, gat teymið uppfært lausnirnar einu sinni til tvistar á dag og þannig brugðist skjótt við tilfallandi hnökrum.
Teymið nýtti sér þau umfangsmiklu gögn sem safnast höfðu í fyrri bylgjum ásamt fyrirliggjandi gögnum úr sjúkraskrám til að þróa spálíkan þar sem gervigreind er beitt til þess að meta líkur á innlögn sjúklinga í rauntíma. Þannig var hægt að kalla sjúklinga inn í snemmtæka og fyrirbyggjandi íhlutun á göngudeild byggt á mati líkansins.
Geti einbeitt sér að meðferðum
Spálíkanið tekur sjálfkrafa afstöðu til heilsu sjúklinga með hjálp margvíslegra algóritma. Í þessu samhengi er covid-sjúklingur einstaklingur sem hefur greinst sýktur af veirunni og er undir eftirliti covid-göngudeildar, óháð sjúkdómseinkennum.
Þegar smit greinist er covid-sjúklingurinn sjálfkrafa skráður í covid-sjúklingahóp Heilsugáttar, vefgáttar sem nánar verður vikið að síðar. Klukkutíma eftir greiningu smits sendist spurningalisti sjálfkrafa til covid-sjúklings í Heilsuveru, ásamt skilaboðum með viðeigandi leiðbeiningum og fræðsluefni. Sjúklingurinn svarar þar ýmsum spurningum um heilsufar og sjúkdómseinkenni ásamt því hvort hann eða fjölskyldumeðlimur starfi á spítalanum. Upplýsingarnar skila sér inn í Heilsugáttinni og fá sjúklingar þar forgangsflokkun byggt á mati spálíkansins. Þannig fá læknar sjúklingahópinn til sín og geta einbeitt sér að því að sinna þeim sem þörf krefur á meðan aðrir eru alfarið í stafrænu eftirliti. Rakningarteymi Landspítalans fær jafnframt upplýsingar sendar hafi sjúklingurinn verið á spítalanum um það leyti sem smit greinist til þess að einfalda þá vinnu.
Sjúklingar undir eftirliti göngudeildarinnar svara spurningalista um þróun einkenna eftir þörfum, það er þá daglega eða sjaldnar ef einkenni eru engin eða væg. Versni einkenni sjúklings er hann flaggaður í sjúklingahópnum í Heilsugáttinni og þá metið hvort bregðast þurfi við. Sjúklingur getur jafnframt óskað sérstaklega eftir símtali frá göngudeildinni og er því þá flaggað sérstaklega í gáttinni. Með þessu hefur álag á starfsfólk vegna símtala til sýktra minnkað til muna og beinist fyrst og fremst þangað sem þörf er á.
Útskrift covid-sjúklinga af göngudeild og úr einangrun er sömuleiðis orðin sjálfvirk. Tveimur dögum fyrir útskriftardag svarar sjúklingur útskriftarleiðbeiningum í Heilsuveru og flokkast hann í kjölfarið sjálfkrafa í biðflokk eftir útskrift. Á útskriftardegi færist sjúklingurinn sjálfkrafa í flokk útskrifaðra og um leið uppfærist gagnagrunnur Almannavarna þannig að sjúklingurinn útskrifast samhliða úr formlegri einangrun.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .