Upp­gjör Kviku banka var um­fram væntingar sam­kvæmt greiningar­fyrir­tækinu Akkur. Af­koman ein­kenndist af sterkum þóknana­tekjum, hóf­legum rekstrar­kostnaði og jákvæðum öðrum tekjum, þrátt fyrir að vaxta­tekjur hafi verið undir upp­færðri spá.

Hreinar þóknana­tekjur Kviku voru langt um­fram spár Akkurs og skýrist það að mestu af góðri fram­vindu í fjár­festinga­banka­starf­semi og í bresku einingunni.

Nú eru 12 mánaða hlaupandi þóknana­tekjur komnar á sama stig og árið 2022, sem var met­ár í sögu bankans.

Akkur telur að þróunin gæti haldið áfram, þó að eignastýring sé enn undir sínum bestu árum.

Rekstrar­kostnaður var tæp­lega 70 milljónum króna undir væntingum Akkurs. Hann jókst um 9,1% frá sama tíma í fyrra, en þar sem tekjur jukust enn meira lækkaði kostnaðar­hlut­fallið tölu­vert.

Hagnaður fyrir skatta nam 2.025 milljónum króna á fjórðungnum, sem er 245 milljónum um­fram spá Akkurs.

Hreinn hagnaður af áfram­haldandi starf­semi var 1.439 milljónir, 175 milljónum yfir væntingum. Undir­liggjandi hagnaður fyrir skatta var 1.916 milljónir, 79 milljónum yfir spá.

Hlaupandi 12 mánaða undir­liggjandi hagnaður er nú rúm­lega 6 milljarðar króna, saman­borið við 5,2 milljarða árið 2024, og Akkur spáir að hann verði um 7,6 milljarðar fyrir árið 2025.

Vaxta­tekjur undir upp­færðri spá

Vaxta­tekjur Kviku námu 2.962 milljónum króna, eða 308 milljónum undir spá Akkurs. Fyrir­tækið tekur þó fram að ástæðan sé að það hafi hækkað spána tölu­vert í júlí eftir frétt um góða eftir­spurn eftir íbúðalánum.

Sú túlkun reyndist of bjartsýn, þar sem 20 milljarða upp­hæðin sem nefnd var í frétt átti við um um­sóknir, ekki þegar veitt lán. Þrátt fyrir þetta voru vaxta­tekjur sögu­lega sterkar.

Eigið fé Kviku er um 7 milljörðum króna um­fram eigin­fjár­mark­mið bankans, eða um 9% af markaðsvirði.

Það er 13 milljörðum um­fram lág­marks­kröfur, sem sam­svarar um 16% af markaðsvirði.

Miðað við dagsloka­gengi í dag er markaðsvirði bankans 244 milljarðar króna, að teknu til­liti til eigin bréfa. Það jafn­gildir 18,0 sinnum hagnaði síðustu tólf mánaða eða um 16,7 sinnum áætlaðum hagnaði 2025. P/B-hlut­fallið er 1,24 og P/NTA 1,82.

Akkur telur að niður­staðan undir­striki sterka stöðu Kviku og að ekkert bendi til þess að endur­skoða þurfi spár næstu missera.

Með sterkan kjarna­rekstur, vaxandi þóknana­tekjur og hóf­legan kostnað sé bankinn vel í stakk búinn til að halda áfram vaxtar­ferlinu.