Nýjum leiðbeiningum Reikningsskilaráðs um gerð skýrslu stjórnar er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að bæta úr ýmsum vanköntum sem hrjáð hafa þennan inngangslið ársreikninga um árabil. Upplýsingagjöf skýrslu stjórnar í ársreikningum hér á landi hefur lengi verið ábótavant og í litlu samræmi við kröfur laga í mörgum tilfellum.

Á þetta hefur Ársreikningaskrá bent sérstaklega og gagnrýnt síðustu ár, og nýlega boðaði stofnunin aukna hörku í framfylgd krafna laganna um þessi atriði.

„Þeir segja vankanta á upplýsingagjöfinni, en markaðurinn hefur á móti verið að óska eftir nánari útlistun á því hverjir þeir eru og hvernig skuli bæta úr þeim. Þetta er okkar svar við því,“ segir Signý Magnúsdóttir meðeigandi hjá Deloitte og meðlimur Reikningsskilaráðs.

Auk Ársreikningaskrár hafi Félag löggiltra endurskoðenda og semjendur og notendur ársreikninga kallað eftir skýrum og ítarlegum leiðbeiningum um hvað kröfur ársreikningalaga um upplýsingar í skýrslu stjórnar fela í sér.

Segi betur frá sjálfum sér
Á sama tíma og eftirlit er hert gagnvart núverandi kröfu laga um upplýsingagjöf stjórnenda, eru auknar lagakröfur í farvatninu í tengslum við sjálfbærni.

„Það er vinna í gangi hjá bæði Alþjóðlega reikningsskilaráðinu og Evrópska verðbréfaeftirlitinu um betri upplýsingagjöf stjórnenda um reksturinn, sérstaklega varðandi framtíðarhorfur og hvernig sjálfbærni í sínum breiðasta skilningi hefur áhrif á rekstrarlíkanið til framtíðar.“

Þar séu í vinnslu kröfur um ítarlegri og sértækari upplýsingar, sem lýsi betur því sem einkennir fyrirtækið sjálft sérstaklega. Eðli máls samkvæmt séu aðalatriði í rekstri hvers fyrirtækis ólík milli atvinnugreina og eftir aðstæðum.

„Fyrirtæki munu þurfa að segja meira frá því hvað þau eru að gera. Að þetta séu upplýsingar sem lesandinn getur raunverulega nýtt sér til að skilja bæði hvað gerðist á því rekstrarári sem var að líða, en ekki síður hvernig stjórnendur horfa á framtíðina. Segðu frá þínu viðskiptalíkani og segðu frá þeim áhættum og tækifærum sem eru framundan, og hvernig fyrirtækið ætlar að vinna úr þeim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .