Subway hefur ráðið Jonathan Fitzpatrick, fyrrverandi forstjóra Burger King, sem nýjan forstjóra fyrirtækisins. Hlutverk hans verður að efla sölu í Bandaríkjunum og styðja við alþjóðlega sókn fyrirtækisins.
Fitzpatrick er fyrsti forstjórinn sem Subway ræður síðan sjóðstýringarfyrirtækið Roark Capital keypti samlokukeðjuna í viðskiptum sem metin voru á um 9,6 milljarða dollara á síðasta ári.
Hann gegndi síðast starfi forstjóra Driven Brands, sem einnig er í eigu Roark, en það félag rekur fjölda fyrirtækja í bílaþjónustu. Fitzpatrick gegndi því starfi frá 2012 fram í maí sl. John Chidsey, sem stýrði Subway í gegnum söluna til Roark, lét af störfum í fyrra.
Subway hefur átt undir högg að sækja á heimaslóðum undanfarin ár. Sala Subway í Bandaríkjunum nam 9,5 milljörðum dollara á síðasta ári, sem var 3% samdráttur frá fyrra ári. Þrátt fyrir það er Subway enn stærsta samlokukeðjan í Bandaríkjunum með um 19.500 staði. Helsti keppinauturinn, Jersey Mike’s Subs, nálgast þó óðum með síaukna veltu og hærri meðaltekjur á hverjum stað.
Fitzpatrick á því að snúa við þróuninni í Bandaríkjunum og um leið að halda áfram að efla starfsemi fyrirtækisins á erlendum mörkuðum.
Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.