Tekjur kvikmyndahúsakeðjunnar AMC námu 1,17 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi, 7% umfram spám greiningaraðila. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg.

Gengi bréfa félagsins hækkaði mest um 14% í gær í kjölfar ársfjórðungsuppgjörsins. Það er það mesta sem gengið hefur hækkað síðan í desember.

Mikil aukning var á kvikmyndahúsagestum á fjórða ársfjórðungi samanborið við aðra ársfjórðunga frá upphafi faraldursins. Samkvæmt Adam Aron, forstjóra fyrirtækisins, er þetta sterkasti ársfjórðungur félagsins í tvö ár.

Þess má geta að kvikmyndin SpiderMan: No Way Home var frumsýnd á ársfjórðungnum, en myndin er sjötta tekjuhæsta kvikmynd allra tíma þrátt fyrir að hafa einungis verið sýnd í kvikmyndahúsum í rúmar sex vikur.