Tesla hyggst safna fimm milljörðum dollara, andvirði 633 milljarða króna, með útgáfu nýs hlutafjár. Hlutabréf Tesla hafa hækkað ört undanfarna daga og hafa aldrei verið hærri. Bréf félagsins standa í 635 dollurum en voru í 86 dollurum í upphafi árs. Bréf Tesla hækkuðu um ríflega sjö prósent í viðskiptum gærdagsins.
Markaðsvirði félagsins er nú komið yfir 600 milljarða dollara og nema nýju hlutirnir því innan við einu prósenti af virði Tesla. Til samanburðar er Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, virði um 540 milljarða dollara og Facebook ríflega 800 milljarða dollara.
Nýju hlutirnir verða seldir jafnt og þétt á þáverandi gengi markaðarins, í stað þess að hafa fyrirfram ákveðið útboðsgengi. Gert er ráð fyrir að hlutabréf Tesla verði skráð í S&P 500 vísitöluna þann 21. desember næstkomandi.
Sagt er frá því í grein Financial Times um málið að Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, hefur nýtt markaðsverð Tesla til þess að safna fjármagni fyrir reksturinn. Nú um mundir er rafbílaframleiðandinn að byggja verksmiðju í Þýskalandi og að leggja lokahönd á framkvæmdir í Kína.