Þýskur dómstóll hefur skipað Tesla að stöðva framkvæmdir tímabundið við nýja bílaverksmiðju þar í landi vegna umhverfissjónarmiða. Er þetta í annað sinn á árinu sem slík stöðvun hefur verið fyrirskipuð af dómstólum vegna nýju verksmiðjunnar. BBC segir frá .
Tesla hefur fengið leyfi frá umhverfisyfirvöldum til að undirbúa framkvæmdir á svæðinu, en þó án þess að því fylgi loforð um grænt ljós á að byggja verksmiðjuna sjálfa, sem enn hefur ekki hlotið formlegt leyfi.
Umhverfisverndarsinnar hafa lýst yfir áhyggjum af búsvæði eðla og snáka í nágrenninu, en rafbílaframleiðandinn hefur verið að ryðja skóga til að undirbúa byggingu verksmiðjunnar í Grünheide í Brandenburg, nálægt höfuðborginni, Berlín.
Dýrin sem um ræðir – sandeðlur og heslisnákar – njóta verndar samkvæmt lögum, og vilja umhverfisverndarsinnarnir meina að auk þess að eyðileggja búsvæðið muni framkvæmdirnar trufla vetrardvala þeirra.
Tesla hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið, en lokaniðurstöðu er enn að vænta í dómsmálinu. Um fyrstu verksmiðju Tesla í Evrópu er að ræða, sem stefnt er að að opni næsta sumar, og framleiði hálfa milljón bíla á ári. Auk þess að framleiða bíla hefur Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, lýst yfir áhuga á að reisa á sama stað stærstu rafhlöðuverksmiðju heims.