Ólafur Teitur Guðnason, fyrrverandi aðstoðarmaður atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hefur verið ráðinn til að stýra samskiptum og kynningarmálum hjá Carbfix. Fyrirtækið býður upp á tæknilausn þar sem koldíoxíð er varanlega bundið í bergi.
Carbfix hefur vakið mikla athygli víða um heim en tæknin sem það býður upp á er enn sem komið er einungis notuð á Íslandi. Töluverður fjöldi erlendra verkefna er þó í undirbúningi. Carbfix og Rio Tinto tilkynntu nýlega um fyrirhugað samstarf fyrirtækjanna. „Samstarfið snýr að því að fanga koldíoxíð frá álverinu í Straumsvík og binda það varanlega í berg í grennd við álverið, sem gæti orðið fyrsta álver heims með eigin föngun og förgun á koldíoxíði," segir Ólafur Teitur.
Hann á tvo syni sem eru 16 og 22 ára en þeir feðgar hafa allir mikinn áhuga á tónlist. Eldri sonur hans hefur verið að gera tónlist í tölvu ásamt því að spila á gítar en sá yngri lærði að spila á gítar á Youtube. „Mér fannst ég hálf partinn hafa svipt þá tækifærinu til að læra á hljóðfæri með því að sækja það ekki nógu fast að þeir færu í tónlistarnám. Svo rak ég upp stór augu einn daginn þegar ég fór að heyra Jimi Hendrix lög úr herberginu hjá yngri stráknum. Hann hafði þá fengið áhuga og lært að spila á Youtube."
Þeir feðgar eru himinlifandi með bassa sem þeir fengu að gjöf frá jólasveininum. „Við erum að reyna að ná tökum á þessu geggjaða hljóðfæri smám saman. Það þarf nefnilega að vera botn í öllu og til þess þarf réttu græjurnar."
Hann segir síðasta árið hafa verið mjög viðburðaríkt. „Bókin mín „Meyjarmissir", um fráfall eiginkonu minnar, kom út. Kosningarnar settu auðvitað svip á vinnuna og svo ákvað ég að skipta um starfsvettvang. Síðast en ekki síst kynntist ég yndislegri konu á árinu, og drengjunum mínum gengur áfram vel í sínum viðfangsefnum. Þetta nærumhverfi manns er nú fyrir mestu þegar allt kemur til alls."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .