Eigendaskipti á Sólon Bistro urðu á haustmánuðum þegar Þórir Jóhannsson fjárfestir keypti staðinn af Jóni Sigurðssyni og Jóhönnu Hrefnudóttur sem hafa átt og rekið Sólon frá árinu 2013. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Þórir er ekki ókunnugur veitingageiranum en hann hefur um árabil verið tengdur veitingarekstri með einum eða öðrum hætti - m.a. á Matbar á Hverfisgötu, Dragon Dim Sum, Kiki QB, Menam á Selfossi, Risinu í Mathöllinni á Selfossi og fleiri stöðum.
Sólon, staðsettur á Bankastræti 7a, hefur verið starfræktur frá árinu 1992. Lagst af var þar ýmis veitingastarfsemi - kaffihús, veitingastaður, samkomustaður, listagallerí og skemmtistaður. Síðustu ár hefur verið rekinn veitingastaðurinn Sólon Bistro og næturklúbburinn Club Sólon.
Hafnar eru breytingar innandyra á Sólon sem hefur að mestu verið óbreyttur frá upphafi og stefnt er að því að klára þær fyrir vorið. „Breytingarnar verða í anda hússins sem var byggt árið 1926 og verður Art Deco stíllinn hafður til hliðsjónar við endurnýjun veitingastaðarins,“ segir í tilkynningunni.
Einnig verður nýr matseðill kynntur fljótlega en hann verður í höndum matreiðslumeistara Matbars á Hverfisgötu sem koma til með að ráða ríkjum í eldhúsinu. Auk þess verður kynntur til leiks nýr kokteilaseðill.