Tilnefningarnefnd fasteignafélagsins Reita hefur lagt til óbreytta stjórn fyrir komandi aðalfund þann 1. mars næstkomandi. Nefndin telur þó að ekki megi líða of langur tími þar á milli þess að breytingar séu gerðar á stjórninni til að tryggja „eðlilega nýliðun“.

Kallað var eftir tilnefningu eða framboðum í stjórn Reita í lok desember. Alls bárust þrettán erindi sem komu til skoðunar hjá nefndinni. „Um var að ræða marga hæfa einstaklinga með víðtæka reynslu, menntun og þekkingu,“ segir í skýrslu tilnefningarnefndarinnar.

Sjá einnig: Reitir hagnast um 7,6 milljarða

Lagt er til að núverandi stjórn verði endurkjörin en hún hafi sinnt verkefnum sínum vel og samstarf verið með ágætum að mati nefndarinnar. Nefndin hafði samband við 20 stærstu hluthafa félagsins til að til að kalla eftir sjónarmiðum við skipan og samsetningu stjórnar. Nefndin átti í kjölfarið fund með tveimur hluthöfum sem þess óskuðu.

„Á fundunum komu ekki fram ábendingar um að þörf væri á breyttri samsetningu stjórnar en ábendingar komu um að áherslan í nánustu framtíð þyrfti að beinast að sjálfbærni og fjármögnun félagsins,“ segir í skýrslunni.

Nefndin ítrekar þó að einstaklingar sem hún gerir ekki tillögu til um sem stjórnarmann geta þó ávallt gefið kost á sér til stjórnarsetu með því að skila inn formi framboðs til stjórnar sjö sólarhringum fyrir aðalfund.

Í stjórn Reita sitja:

  • Þórarinn Viðar Þórarinsson, stjórnarformaður
  • Martha Eiríksdóttir, varformaður stjórnar
  • Gréta María Grétarsdóttir
  • Kristinn Albertsson
  • Sigríður Sigurðardóttir

Tilnefningarnefnd Reita skipa Margret G. Flóvenz formaður, Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Hilmar Garðar Hjaltason.