Evrópska fjárfestingarfélagið Index Ventures hefur hagnast um meira en 11 milljarða Bandaríkjadala, rúmlega 1359 milljarða króna, eftir að þrjú af helstu sprotafyrirtækjum þess fóru í frumútboð eða voru seld á skömmum tíma.
Félagið, sem var stofnað í Sviss á tíunda áratug síðustu aldar og er nú með starfsemi í London og San Francisco, hefur skipað sér í fremstu röð áhættufjárfesta á alþjóðavísu.
Þátttaka þeirra í fjármögnun fyrirtækjanna Figma, Scale AI og Wiz hefur nú skilað þeim gríðarlegri ávöxtun, jafnvel umfram það sem stærri samkeppnisaðilar hafa náð samkvæmt The Wall Street Journal.
Mikill ábati af fjárfestingu í Figma
Index lagði samtals 86,5 milljónir dala í hugbúnaðarfyrirtækið Figma. Eftir frumútboð félagsins í síðustu viku er hlutur Index metinn á um 6 milljarða dala.
Hlutabréf Figma hækkuðu um 250% á fyrsta viðskiptadegi. Index seldi um 5% af sínum hlut við útboðið og fékk fyrir hlutinn um 108 milljónir dala, en heldur eftir eignarhlut sem nemur yfir 15%.
Arðbærar útgöngur í Scale AI og Wiz
Scale AI, sem vinnur að þróun gervigreindarlausna, greiddi hluthöfum út arð eftir að Meta Platforms, móðurfélag Facebook, festi kaup á 49% hlut.
Index fékk þar um 1,4 milljarða dala greidda, samkvæmt heimildum The Wall Street Journal.
Þá er Google að ganga frá kaupum á öryggistæknifyrirtækinu Wiz fyrir um 32 milljarða dala, sem yrðu ein stærstu kaup á tæknifyrirtæki í sögunni. Gangi viðskiptin eftir verður hlutur Index metinn á um 4,3 milljarða dala.
„Fjárfesting byggð á sterkri sannfæringu“
Index hefur hlotið lof fyrir að vera meðal fyrstu fjárfesta í ofangreindum félögum og fyrir virka þátttöku í stjórnum þeirra.
Fjárfesting félagsins í Figma hófst til að mynda þegar félagið var enn á hugmyndastigi og varð félagið hluti af sjötta sjóði Index.
Index leiddi stofnfjármögnun Figma árið 2013 með 1,8 milljón dala framlagi og sat í stjórn félagsins alla tíð síðan.
„Þetta var fjárfesting byggð á sterkri sannfæringu,“ segir Terrence Rohan, fyrrverandi fjárfestir hjá Index sem sat í stjórn Figma og er nú framkvæmdastjóri nýs vísissjóðs.
Hann segir að Index hafi á þeim tíma lagt áherslu á að leiða fjármögnun, taka þátt í stjórnarstarfi og veita raunverulegan stuðning – öfugt við þá stefnu margra sjóða að dreifa áhættunni með fjölda smárra framlaga án eftirfylgni.