Al Cook, forstjóri De Beers, segist vilja bjarga heilli kynslóð elskhuga og nýgiftra hjóna frá því sem hann kallar gríðarlegt svik þegar kemur að demantskaupum. Í viðtali við WSJ vísar forstjórinn til demanta sem búnir eru til á tilraunastofum.
Hann segist uggandi yfir framtíð vörumerkis síns og demantaiðnaðarins í heild sem hefur stjórnað markaðnum í meira en öld.
De Beers, sem er með höfuðstöðvar í London, náði á sínum tíma að sannfæra heilu kynslóðir neytenda um að ást væri ekki ósvikin nema hún væri innsigluð með demanti og náði fyrirtækið að jafngilda demöntum við eilífa ást.
Á undanförnum árum hafa slíkir demantar, sem búnir eru til á tilraunastofum við mikinn þrýsting og hátt hitastig, aukist í vinsældum. Fyrir rúmum áratugi voru þeir mjög sjaldgæfir en árið 2016 samsvöruðu þeir rúmlega 1% af markaðnum. Í dag samsvarar markaðshlutdeild þeirra hins vegar um fimmtungi af allri demantsframleiðslu.
Bandaríska verslunarkeðjan Walmart byrjaði til að mynda að selja demanta frá tilraunastofum árið 2022 og í dag samsvara þeir demantar, sem eru töluvert ódýrari en hefðbundnir steinar, helming af allri demantsölu verslunarrisans.
Meira en helmingur allra trúlofunarhringa sem keyptir voru í Bandaríkjunum á síðasta ári var framleiddur á tilraunastofum en það er 40% aukning frá árinu 2019.
Vitundarvakning um raunverulegt verðmæti
Þegar Harry Oppenheimer, sonur stofnanda De Beers, flutti starfsemi fyrirtækisins til Bandaríkjanna vann hann með auglýsingastofunni N.W. Ayer og árið 1947 kom út hin sögufræga demantsauglýsing sem bar línuna „Demantur er að eilífu.“
Auglýsingaherferðin var ein sú áhrifaríkasta í sögunni og með henni náði fyrirtækið að tryggja sér fínan ágóða fyrir komandi áratugi. De Beers hafði þegar náð stjórn á alheimsframboði demanta og fékk svo eftirspurnina í kaupbæti.
Demantar eru vissulega sjaldgæfari afurð en margt annað sem finnst í jörðinni en raunverulegt verðmæti þeirra er í raun ekkert annað en aldargömul sölubrella fædd af græðgi eins fyrirtækis.
Það er því skiljanlegt að demantar séu fullkomin afurð til að fjármagna stríðsrekstur. Mörg ríki í Afríku þar sem demantar finnast áttu þegar við spillingarvandamál að stríða og jafnvel minnstu steinarnir geta skilað inn miklum gróða.
Demantar eru líka ein auðveldasta afurð í heimi til að smygla en þeir eru agnarsmáir og finnast ekki í málmleitartækjum.
Þessi þróun hefur hjálpað við að auka vinsældir demanta sem koma frá tilraunastofum en umræðan um blóðdemanta hefur til að mynda vakið upp spurningar um siðferði og raunveruleg verðmæti þessara steina.
Árangurslaust stríð gegn blóðdemöntum
Blóðdemantar, eða átakademantar, eru skilgreindir sem demantar sem finnast á átakasvæðum. Ágóði þeirra er síðan notaður til að fjármagna hryðjuverk eða skæruliðahreyfingar sem vilja ráðast gegn lögmætum ríkisstjórnum.
Ríkisstjórnir, fyrirtæki og mannréttindasamtök hafa reynt að stöðva sölu slíkra demanta en oft með misgóðum árangri.
Eftir mörg blóðug stríð sem höfðu geisað yfir í áratugi ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að skerast í leikinn og undirrituðu hið svokallaða Kimberely-ferli árið 2003. Hugmyndin var að innleiða vegabréfskerfi fyrir hvern og einn demant og þar með væri hægt að rekja uppruna þeirra.
Vandamálið er hins vegar að 90% af öllum demöntum í heiminum eru slípaðir í einni borg, Surat á Indlandi, og þegar búið er að slípa steinana er nánast ómögulegt að sjá hvort demanturinn hafi komið frá Rússlandi, Kanada eða stríðshrjáðum svæðum í Afríku.
Önnur ástæða fyrir því að demantar frá tilraunastofum gætu aukist enn meira í vinsældum er tollastríð Donalds Trumps. Bandaríkin eru stærsti neytandi demantsskartgripa í heiminum en eru þó ekki með eina einustu demantsnámu.
Innflutningstollar munu án efa hækka verðlagið á innfluttum demöntum á tímum þegar Bandaríkjamenn eru þegar farnir að velja hagkvæmari valkosti sem geta prýtt hendur nýgiftrar konu, vitandi að barn í Afríku þyrfti ekki að missa sínar.